140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

lífeyrissjóðirnir og skuldir heimilanna.

[15:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú kannast ég við hv. þingmann. Þegar hann þarf virkilega að rökstyðja mál sitt fer hann í þann gír sem hann var í hérna síðast.

Varðandi sambúð lífeyriskerfanna þekkjum við auðvitað þá umræðu og markmiðin um að stefna að einu samræmdu og einsleitu lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Mikil vinna hefur verið unnin undanfarin eitt og hálft, tvö ár í þeim efnum. Hvað opinbera lífeyrissjóðakerfið varðar þarf að hafa í huga að greina að annars vegar A-deildina, sem á að standa undir sér sjálf og þarf að rétta af og það er viðráðanlegt verkefni, og hins vegar B-deildina og þann mikla uppsafnaða vanda sem þar bíður, en við höfum sem betur fer áratugi til að takast á við. Þar koma margir við sögu eins og kunnugt er og ekki er hægt að skella þeim reikningi í andlitið á núverandi ríkisstjórn einni og segja að hún hafi búið þann vanda til, þó ýmislegt sé reynt í þeim efnum. Hann hefur legið ljós fyrir alveg frá 1996, 1997 þegar nýju lögin um lífeyrissjóðina voru sett og þegar opinberu sjóðunum var skipt upp og ákveðið að leggja grunn að nýju kerfi í A-deildinni en takast á við vanda B-deildarinnar (Forseti hringir.) með inngreiðslum á löngu árabili.