140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

öryggi lögreglumanna.

[15:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er vissulega verðugt mál að taka upp á Alþingi en við megum aldrei missa sjónar á því að borið saman við það sem gerist í öðrum löndum búa Íslendingar sem betur fer í öruggu og góðu samfélagi. Það er mergurinn málsins.

Hitt er annað mál að það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að lögreglan hefur þurft að sæta aðhaldi og niðurskurði eins og öll önnur opinber starfsemi á undangengnum árum vegna þess efnahagshruns sem reið yfir þjóðina. Það hefur að sönnu bitnað á lögreglunni eins og öðru en við erum sem betur fer að sjá til sólar að nýju. Annað er að við höfum notað tímann undanfarin ár og missiri til að leita leiða til að nýta fjármunina sem við höfum handa á milli á annað borð betur og á markvissari hátt. Út á það ganga þær skipulagsbreytingar sem eru í farvatninu og hafa verið kynntar á Alþingi í tveimur lagafrumvörpum, annars vegar frumvarpi um sýslumenn og hins vegar frumvarpi um lögregluna og skipulagsform lögreglunnar. Þau eru hugsuð þannig að við nýtum fjármuni betur innan stjórnsýslu lögreglunnar með það fyrir augum að geta haft fleiri lögreglumenn á vettvangi til að sinna útköllum og þjónusta borgarana.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að lögreglumenn séu ekki einir á ferð að sinna mjög stórum umdæmum. Það á einnig við á þéttbýlissvæðunum, það er mikilvægt að þeir séu fleiri en einn (Forseti hringir.) á ferð og hafi öryggi hver af öðrum.