140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

neytendavernd á fjármálamarkaði.

[15:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum frá síðustu kosningum rætt mjög mikið frumvarp sem fjallar um innstæðutryggingarkerfi sem er mál sem við þekkjum mjög vel og hefur verið mikil andstaða í þinginu við að samþykkja slíka löggjöf. Ástæðan er einföld, slíkt kerfi getur ekki hentað fyrir Íslendinga. Það er tryggingakerfi sem er upprunnið í Bandaríkjunum þar sem eru sjö þúsund og eitthvað bankastofnanir og þar er ábyrgðinni mjög dreift, en á Íslandi eru þrír bankar með 95% af öllum innstæðum. Þetta hefur verið margrætt í þinginu og allir sem að málinu hafa komið hafa komist að sömu niðurstöðu enda er hún algerlega augljós.

Við höfum hins vegar tækifæri til að hafa áhrif á þessa hluti. Þetta er bundið við tilskipun Evrópusambandsins. Ég átti fundi með formanni þeirrar nefndar sem fer með þessi mál hjá Evrópusambandinu og hann, eins og aðrir nefndarmenn sem ég talaði við þar í september sl., hafði skilning á stöðu Íslands og bauðst til að taka við erindi frá okkur og hugmyndir um undanþágur hvað þessa hluti varðaði. Ég upplýsti þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Pál Árnason, um þessa hluti og það kom mér því mjög á óvart þegar það var upplýst í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að við höfum ekki nýtt okkur þetta tækifæri og við höfum ekkert gert, virðulegi forseti, til að vekja athygli á málstað okkar Íslendinga hjá þeim sem um þetta véla.

Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra af hverju svo er, af hverju hafa íslensk stjórnvöld ekki reynt að koma sjónarmiðum okkar (Forseti hringir.) fram í þessu mikilvæga máli?