140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

sérstök lög um fasteignalán.

788. mál
[15:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli sem er mjög gilt. Auðvitað er það svo að í kjölfar bankahrunsins hefur mikið verið rætt um endurbætur á regluverki fjármálakerfisins og auðvitað miðar allt að því að tryggja að þau dýrkeyptu mistök, hagstjórnar-, eftirlits- og skipulagsmistök eða hvað við viljum kalla þau, sem hrunið endurspeglar, endurtaki sig ekki. Að sjálfsögðu eru húsnæðislánin eða fasteignalánin og starfsemi Íbúðalánasjóðs mjög gildur hluti af þessu.

Nú er það svo með Íbúðalánasjóð að umgjörðin um hann er nokkuð í deiglunni, m.a. vegna athugasemda frá ESA sem nýlega hefur verið svarað, og það kann að ráða nokkru um hver nákvæmlega staða Íbúðalánasjóðs verður og hvernig honum verður afmarkaður bás í lánakerfinu. Sömuleiðis vil ég vitna í þá ágætu skýrslu sem við ætlum að ræða seinna í dag þar sem fjallað er nokkuð ítarlega um framtíðarskipan fjármálakerfisins og þessi mál reifuð. Það er nákvæmlega hárrétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta er náskylt mál og eiginlega hin hliðin á því sem er undir þegar menn ræða um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarúðarreglur.

Ef við horfum á þetta frá þeirri hlið sem snýr að neytendunum má líka minna á að á Íslandi hefur sú skipan mála verið við lýði að fasteignalán eru færð undir lög um neytendalán og hefur verið allt frá 2000. Frumvarp liggur nú fyrir þingi þar sem í raun og veru löggjöfin er útvíkkuð að þessu leyti og gerð fyllri á ýmsan hátt sem yrði að sjálfsögðu neytendum til hagsbóta og verndar að sjálfu sér. Þannig eru til dæmis þær reglur sem eru lagðar fram nú um lánshæfis- og greiðslumat og sú nýbreytni þess frumvarps að aðskilja og gera greinarmun á lánshæfismati og greiðslumati þar sem lánshæfismatið er víðtækara hugtak og tekur til hinna huglægari þátta auk hinna hlutlægu. Það má segja líka að lögin geri ráð fyrir að mótaðar verði samræmdar efnisreglur um hvernig slíkt greiðslumat fer fram. Þær hafa ekki áður verið færðar í laga- eða reglugerðabúning en meiningin er með frumvarpinu að það verði gert. Þó að menn hafi vissulega byggt þar á ákveðnu samkomulagi stjórnvalda og neytendasamtaka o.s.frv. og fjármálafyrirtækjanna, þá held ég að væri tvímælalaust bót að því að formfesta reglur um þetta. Það má nefna upplýsingagjöf í tengslum við auglýsingar og annað í þeim dúr.

Hafandi sagt þetta vil ég þó svara spurningunni alveg skýrt að ég ætla síður en svo að hafna að óathuguðu máli þeirri hugmynd að til viðbótar þessu og jafnvel til viðbótar því, verði það niðurstaðan, að setja rammalöggjöf um alla starfsemi fjármálafyrirtækja en það er ein af hugmyndunum sem reifuð er í skýrslunni og þá hafa menn auðvitað séð fyrir sér að í þeirri rammalöggjöf sem tæki til allra fjármálafyrirtækja, líka Íbúðalánasjóðs, og lánveitinga banka og sparisjóða til íbúðakaupa o.s.frv., gætu komið einhver sérstaklega fjármálastöðugleikaatriði af þessu tagi þar sem hægt væri í þágu þess að tryggja fjármálastöðugleika að setja tilteknar skorður í formi veðsetningarhlutfalla eða lengdar lánstíma, það hversu langur tími þyrfti að líða áður en vaxtakjör væru endurskoðuð á lánum o.s.frv. Slíkt gæti vissulega komið í slíka löggjöf en það breytir ekki hinu að það kann vel að vera ástæða til að fara yfir það og hafa það sem hluta af skoðun þegar menn eru með framtíðarskipan fjármálakerfisins undir í heildstæðri skoðun að hér ætti að setja sérstök lög um fasteignalán.

Eins og ég segi, ég vil svara spurningunni fyrir mitt leyti skýrt að því leyti að ég ætla síður en svo að hafna þeirri hugmynd vegna þess að ég sé alveg kostina við það að ná þannig ákveðnu samræmi á þessum markaði og vonandi hvoru tveggja í senn að tryggja betur stöðu neytenda, jafnvel umfram það sem við sjáum fyrir okkur að við séum að gera með því að fella fasteignalán undir lög um neytendalán, og um leið að innbyggja þjóðhagsvarúðar- og fjármagnsstöðugleikatæki í slíka löggjöf. Ég hef hugsað mér að láta það verða undir í þeirri skoðun sem vonandi verður í gangi í framhaldi af umræðum um þessa skýrslu og störfum sérfræðinganefndar þar um, ég hef ætlað mér að nota sumarið að einhverju leyti í það að sá þáttur málsins sem vakin hefur verið athygli mín á, m.a. af hv. fyrirspyrjanda og reyndar fleiri þingmönnum á undanförnum vikum, verði skoðaður sérstaklega.