140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

sérstök lög um fasteignalán.

788. mál
[15:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek eindregið undir að þörf er á því að fara yfir þetta allt, þó ekki væri nema í ljósi reynslunnar.

Auðvitað verður að segja það eins og það er, að við vorum nánast tekin í bólinu í þessum efnum komandi úr tiltölulega stöðugu kerfi þar sem Íbúðalánasjóður, áður Húsnæðisstofnun ríkisins, stýrði þessu í gegnum starfsreglur sínar og lög og var fjármögnunaraðili að uppistöðu til á fasteignamarkaði. Síðan brestur á með samkeppni þegar bankarnir ryðjast inn á þennan markað. Við þekkjum öll þessa sögu.

Nú spyrja margir: Er leikurinn að endurtaka sig með sókn bankanna inn á fasteignalánamarkaðinn með óverðtryggðum lánum? Það er sannarlega ástæða til að ganga þar hægt um gleðinnar dyr. Reyndar veit ég að Fjármálaeftirlitið mun fylgjast mjög grannt með því að bankarnir verði fjármagnaðir í samræmi við það sem þeir bjóða út á þessum markaði.

Ég vil taka það fram að lánasamningar vegna kaupa á fasteignum eru undanþegnir gildissviði tilskipunar Evrópusambandsins um neytendalán þó að við höfum valið aðra leið. Hins vegar er nú í bígerð að setja tilskipun um kaup neytenda á íbúðarhúsnæði og er hún til umfjöllunar innan Evrópusambandsins. Komi slík tilskipun þarf að sjálfsögðu að skoða hvort við ætlum að hafa reglur um kaup neytenda á fasteignum í almennum lögum um neytendalán eða setja sérlög í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir að alltaf verði hægt að velja hvora leiðina sem er. Því fylgdu ýmsir kostir að ná utan um þennan mikilvæga þátt sem er, eins og hv. fyrirspyrjandi nefnir, oftast stærsta einstaka fjárfesting fjölskyldna á ævinni.

Að lokum tek ég undir það að inn í þetta samhengi þarf að taka sjóðfélagalán eða fasteignalán lífeyrissjóðanna. Ég held að ég þurfi ekki að rökstyðja hvers vegna.