140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

skimun fyrir krabbameini.

671. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er einkar ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða þetta mál við hæstv. velferðarráðherra. Það hefur gengið hálfilla hjá okkur að ná saman, en þetta er mál sem ég held að við séum bæði sammála um að skipti verulega miklu máli og einkar brýnt að við fáum niðurstöðu í.

Fyrirspurn mín til hæstv. velferðarráðherra er eftirfarandi:

Hvernig hefur verið staðið að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefjast átti í ársbyrjun 2009, samanber yfirlýsingar heilbrigðisráðherra 6. febrúar 2008 og ályktun Alþingis frá 17. mars 2007?

Eins og þið heyrið samþykkti Alþingi í byrjun árs 2007 þingsályktun þar sem hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra var falið að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og skyldi leitin hefjast á árinu 2008. Þarna kom fram skýr vilji frá Alþingi um að þetta vildum við að væri gert.

Hins vegar hefur þessu verið frestað ítrekað síðan þá. Nú í lok maí 2012 er skimun eftir ristil- og endaþarmskrabbameini ekki enn þá hafin og væntanlega má ætla að helsta skýringin sé vegna kostnaðar. Það er ekkert annað sem gefur til kynna eða gæti verið rökstuðningur fyrir því af hverju ætti að hætta við skimun eftir ristil- og endaþarmskrabbameini.

Rannsóknir hafa sýnt að skimun eftir þessu krabbameini er hagkvæm. Það eru fjölmargar rannsóknir sem liggja fyrir um kostnaðarvirkni af mismunandi aðferðum við skimun þó deilt sé um hver nákvæmlega hagkvæmasta aðferðin er. Flestir eru þó sammála um að skimun lækkar dánartíðni og er að minnsta kosti jafnhagkvæm og skimun fyrir krabbameini í brjósti eða leghálsi.

Nýgengni krabbameins í ristli og endaþarmi hefur aukist umtalsvert á Íslandi á undanförnum áratugum. Um mjög alvarlegan sjúkdóm er að ræða en búast má við að tæplega helmingur þeirra sem greinast deyi úr sjúkdómnum. Það hafa orðið miklar framfarir í meðferð, en þær eru hins vegar dýrar. Ástæðan fyrir áhuga á skimun eftir þessu krabbameini er að það er unnt að greina sjúkdóminn á fyrri stigum og meðhöndla hann með minni kostnaði og meiri árangri.

Á Íslandi greinast árlega að meðaltali 134 einstaklingar með krabbamein í ristli og endaþarmi. Það hefur verið reiknað út að kostnaður við meðferð þessara sjúklinga árið 2008 hafi numið 684 millj. kr. Skipaður var ráðgjafahópur af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hópurinn áætlaði að kostnaður við skimun á aldurshópnum 60–69 ára næmi 58 millj. kr. á ári. Áætlað er að (Forseti hringir.) leitin mundi leiða til lækkunar á dánartíðni um heil 18%. (Forseti hringir.)

Því óska ég eftir skýrum svörum frá hæstv. velferðarráðherra um það hvenær hann hyggst fara að ályktun Alþingis varðandi skimun eftir ristil- og endaþarmskrabbameini.