140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

tóbaksreykingar við sjúkrastofnanir.

766. mál
[16:21]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um tóbaksreykingar við sjúkrastofnanir og spyr hv. þingmaður hvort uppi séu áform um að sjúkrastofnanir banni alfarið tóbaksreykingar á lóð sinni eða að minnsta kosti við innganga stofnana og á svölum þeirra, sem er raunar í reglugerð eins og kom fram.

Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda að reykingar eru auðvitað einn af okkar skaðvöldum varðandi heilbrigði og dánarorsakir og okkur ber skylda til þess að reyna að lágmarka þann skaða eins og hægt er og höfum við náð þar verulegum árangri, ekki hvað síst fyrir atorku hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og ber að þakka það og við þurfum auðvitað að fylgja því eftir áfram.

Það er rétt eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda að í lögum um tóbaksvarnir er kveðið á um að allar tóbaksreykingar séu bannaðar á heilsugæslustöðvum, á læknastofum og öðrum stöðum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt. Eins er í lögum lagt bann við tóbaksreykingum á sjúkrahúsum. Í lögunum eru þó veittar vissar undanþágur frá þessu banni en undanþágurnar snúa að því að leyfa reykingar sjúklinga og vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum við vissar aðstæður. Í reglugerð eru svo þessar undanþágur útfærðar nánar. Í þessari sömu reglugerð, reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum nr. 326/2007, er bann við tóbaksreykingum á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, læknastofum og öðrum stöðum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt. Í reglugerðinni er það svo skilgreint nánar.

Í 3. gr. reglugerðarinnar segir að bann við tóbaksreykingum á framangreindum stöðum nái til allra húsakynna og að ekki skuli reykt á svölum eða við anddyri, eins og hv. þingmaður vakti athygli á. Það er því ljóst að tóbaksreykingar við innganga stofnana og á svölum þeirra eru með öllu bannaðar óháð því hvort einstakar stofnanir hafi sett sér sérstakar reglur þar um eða ekki.

Fyrirspurnin vekur þó athygli á þeirri staðreynd að reykingar á almannafæri utan dyra eru ekki bannaðar samkvæmt lögum um tóbaksvarnir og þeirri reglugerð sem sett var með stoðum í lögunum, en sá hluti fyrirspurnarinnar er snýr að reykingum á lóð sjúkrastofnunarinnar varðar einmitt þetta atriði, þ.e. að bannið nær ekki til lóðarinnar í heild.

Í þessu skyni vil ég sérstaklega nefna að í mars á þessu ári samþykkti framkvæmdastjórn Landspítalans, stærstu heilbrigðisstofnunar landsins, nýja stefnu í tóbaksvörnum. Embætti landlæknis styrkti vinnu við stefnumótunina en hún var hluti af samstarfssamningi milli stofnananna tveggja sem miðar að því að efla þar forvarnir. Meðal atriða sem fram komu í stefnu þessari er að Landspítalinn leggur á það áherslu að hindra tóbaksnotkun í öllum byggingum og einnig á lóð spítalans, þannig að það hefur verið samþykkt sem reglur á Landspítalanum, og að í og við húsakynni Landspítala sé óleyfilegt að nota hvers kyns tóbak eða halda á logandi sígarettu, vindli, pípu eða öðrum hlutum sem valda tóbaksreyk.

Hæstv. forseti. Á vorfundi Landssamtaka heilbrigðisstofnana sem fram fór 11. maí sl. vakti fulltrúi velferðarráðuneytisins athygli fundarmanna á fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og voru fundarmenn jafnframt hvattir til þess að heilbrigðisstofnanir mörkuðu sér skýra stefnu í tóbaksvörnum, þar með talið gegn reykingum á lóðum stofnananna. Er það von mín að stofnanirnar geti tekið vinnu Landspítalans, sem ég nefndi hér á undan, sér til fyrirmyndar.

Að lokum vil ég nefna að í velferðarráðuneytinu er nú hafin undirbúningsvinna vegna stefnumótunar í tóbaksvörnum. Í þeirri vinnu verður m.a. horft til þess hvernig megi með lögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum takmarka enn frekar tóbaksreykingar við heilbrigðisstofnanir og víðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt og hvaða leiðir séu árangursríkastar til að svo megi verða.

Bent hefur verið á, m.a. af fólki með fötlun eins og fólki í hjólastólum, að það getur verið vandamál fyrir það að fara út fyrir lóð ef það hefur á annað borð ánetjast tóbaksfíkninni. Ég held að það þurfi að vera einhver sveigjanleiki í þessum reglum en ég held að það sé afar mikilvægt að heilbrigðisstofnanir setji sér skýrar reglur. Það er eins með þessar reglur og annað að það skiptir mestu máli hverjir setja þær og að þeim sé fylgt eftir af þeim sem hafa trú á reglunum því að þannig náum við árangri.

Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni og þakka henni hennar ötulu baráttu gegn tóbaksreykingum og ítrekun á því hversu mikilvægt er að sporna gegn reykingum sem hluta af forvörnum í heilbrigðiskerfi okkar.