140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

tóbaksreykingar við sjúkrastofnanir.

766. mál
[16:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum sammála um að við eigum að mælast eindregið til þess við heilbrigðisstofnanir að þær setji sér skýrar reglur og markmiðið sé að hindra eða takmarka eins og mögulegt er heimildir til að reykja eða nota tóbak á lóðum viðkomandi stofnana.

Ég kann svo sem ekki að kveða upp úr um það hvort lagagrunnurinn og reglugerðarheimildin sé skýr en alla vega hafa ekki borist neinar kærur til ráðuneytisins varðandi framkvæmdina á þessu. Ég held að það sé full ástæða til að láta reyna á það. Það er þá, eins og hv. þingmaður vekur athygli á, hægt að skýra það betur með bæði lagagrunni og reglugerð eftir því sem ástæða er til.

Ég vil þó vekja athygli á því sem ég nefndi hér áðan að það kunni að vera einhverjir hópar sem þurfa séraðstöðu, þá er ég að tala um hjólastólafólk eða fólk sem getur ekki komið sér langar leiðir einhverra hluta vegna, á við veikindi að stríða og er bundið við sjúkrahús. Ég held að menn þurfi alltaf að taka tillit til slíkra aðstæðna á meðan tóbak er ekki bannað sem slíkt.

Hv. þingmaður hefur vakið athygli á mögulegum leiðum til að sporna gegn tóbaksnotkun og ég tek heils hugar undir þær vangaveltur. Kærar þakkir til fyrirspyrjanda fyrir baráttu hennar gegn tóbaksreykingum.