140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[16:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að fara yfir skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Í fyrsta vil ég segja að mér finnst þessi vinnubrögð til fyrirmyndar og þessi skýrsla er um margt mjög góð. Auðvitað eru uppi ólík sjónarmið og það er ekki víst að ég sé sammála öllu sem stendur í skýrslunni en hún er að minnsta kosti unnin á faglegan hátt og eftirleikurinn, að fá þá sérfræðinga sem nefndir voru til sögunnar í ræðu hæstv. ráðherra, bendir til að fylgja eigi þessu vel eftir.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, það ljós hefur runnið upp fyrir mönnum að fjármálastöðugleiki er sannkölluð almannagæði. Eitt af mikilvægustu hlutverkum hins opinbera er að tryggja hann. Við Íslendingar höfum upplifað mikið hrun og sannkallaða djúpa fjármálakreppu. Fjármálakreppur eru hvorki sjaldgæfar né nýjar af nálinni, frá um 1970 hafa orðið vel á annað hundrað fjármálakreppur í heiminum. Þær hafa verið mismunandi en stafa yfirleitt af kerfislægum ástæðum. Þess vegna er brýnt að þjóðir heims, sérstaklega við Íslendingar og kannski í því tilliti að hér fjöllum við á þjóðþingi Íslendinga um málið, komi sér upp því regluverki um fjármálamarkaði að líkurnar á kreppu eins og skall á okkur árið 2008 verði minni.

Þeir sem halda því fram eða trúa því að það verði hægt að undirbyggja regluverkið þannig að hér muni aldrei aftur verða fjármálakreppur vaða í villu og svíma. Fjármálakreppur eru algengar í heiminum, þær verða í stjórnskipulagi af öllum tegundum, hvort sem það er kapítalískt eða kommúnískt kerfi, einræði eða konungsríki. Það verða fjármálakreppur eins og sagan sýnir okkur.

Ég hef sterkar skoðanir á því hvernig umgjörð um fjármálamarkaði eigi að vera háttað. Ég tel að eftirlit verði að vera mjög vandað og að þar eigi fyrst og fremst að horfa til stofnanaumgjarðarinnar. Fjármálaeftirlit gegnir stóru hlutverki í að fylgjast með kerfislægri áhættu en það er jafnframt hlutverk seðlabanka. Því er ég eindregið þeirrar skoðunar að bankaeftirlitshlutverk eigi að vera í seðlabanka þar sem menn eru eðli máls samkvæmt með puttann á púlsinum hvað varðar fjármálastöðugleika. Jafnframt er ég þeirrar skoðunar að meðan við búum við það fyrirkomulag að við tryggjum innstæður verðum við að aðskilja fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi. Við getum haft þetta algjörlega aðskilið en við getum líka farið þá leið sem Bretar hafa mælt með og reist girðingu í kringum fjárfestingarbankastarfsemina þannig að þrátt fyrir fall fjárfestingarbankans lendi skellurinn ekki á eigin fé viðskiptabankastarfseminnar. Bretar hafa lagt mikla vinnu í að útfæra þetta og ég held að þetta sé ekki vitlaus hugmynd. En það er líka hægt að fara alla leið og aðskilja starfsemina þannig að við höfum nokkurs konar sparisjóði og hins vegar fjárfestingarbanka.

Ég minntist á innstæðutryggingarnar. Það er ljóst að innstæðutryggingakerfi eins og við höfum búið við ganga ekki upp. Það er ljóst að í meginatriðum þarf fleiri en þrjá aðila til að borga inn tryggingar til að geta staðið undir því að einn fari á hliðina. Þetta er ekki séríslenskt vandamál, þetta er vandamál í öllum löndum nema kannski helst Bandaríkjunum. Þar er gríðarlega stórt bankakerfi og margir bankar og þar af leiðandi margir sem greiða tryggingar.

Eitt sem við þurfum að huga að, sem aðeins er komið inn á í lok skýrslunnar, er hinn gríðarlegi kostnaður við íslenska bankakerfið. Það er ljóst að það er mikilvægt að íslenska bankakerfið verði minnkað og gert hagkvæmara til þess að vaxtamunur þurfi ekki að vera jafnmikill og raun ber vitni. Til að mynda gerir nútímatækni, tölvutækni, það að verkum að ekki þarf að halda uppi jafnmiklum fjölda útibúa eins og nú er. Hér á Íslandi er færri íbúar á hvert útibú en víða gerist.

Að þessu sögðu, tímans vegna, vil ég að lokum segja að mér finnst þetta ágætisskref og þetta er ágætisskýrsla. Mér sýnist það ágætisverklag sem lagt er upp með, að sérfræðingar rýni skýrsluna og komi með beinar tillögur í framhaldinu. Svo sjáum við hver afraksturinn verður í frumvarpi sem hæstv. ráðherra vonaðist til að geta lagt fram í haust. Við verðum að bíða og sjá hvort það frumvarp endurspeglar þau vandamál sem þarf að leysa og þau sjónarmið sem koma fram m.a. í þessari skýrslu.