140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[17:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í skýrslunni sem við ræðum hér er að finna góða umfjöllun um aðdraganda bankahrunsins, viðbrögð stjórnvalda við hruninu og aðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir annað bankahrun.

Allsherjarbankahrun eins og það sem varð hér á landi eru fátíð en bankahrunið á Íslandi má rekja til einkavæðingar bankakerfisins, aukins frelsis á fjármálamarkaði og mikilla fjármagnsflutninga til Íslands frá útlöndum sem stafaði ekki síst af rangri peningastefnu sem endaði síðan með miklu útstreymi fjármagns á þeim tíma sem bankarnir hrundu. En það eru þó eigendur bankanna sem bera mesta ábyrgð á falli þeirra og ekki síst stjórnvöld sem hvöttu þá til vaxtar fyrir hrun.

Áður en bankarnir hrundu hér á landi var álitið að bankakerfinu sem var í ríkiseigu væri hættara við fjármálakreppu en öðrum kerfum eða kerfi þar sem meiri hluti banka væri í einkaeigu. En Ísland afsannaði þá kenningu og sýndi fram á að spilling nær ekkert síður fótfestu í einkabönkum en ríkisbönkum.

Hrunið afhjúpaði innbyggða kerfisáhættu og sveifluhneigð íslenska fjármálakerfisins vegna mikillar samþjöppunar og einsleitni. Aðeins þrír bankar varðveita nú 97% innstæðna og atvinnulífið er einhæft og sveiflukennt. Við slíkar aðstæður getur ekkert innstæðukerfi tryggt að skattgreiðendur þurfi ekki að hlaupa undir bagga með innstæðueigendum. Það þarf að bregðast við þessari kerfisáhættu með öflugu eftirliti með starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja og öllu fjármálakerfinu.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mikil kerfisáhætta krefjist þess að alltaf sé einn banki í eigu ríkisins til að tryggja að greiðslumiðlun falli ekki niður við hrun annarra banka. Í sveiflukenndu hagkerfi eins og því íslenska er mikilvægt að hamla gegn þeirri tilhneigingu fjármálakerfisins að fylgja hagsveiflum og jafnvel ýkja þær.

Við þurfum því meðal annars að taka upp hagsveifluleiðrétta eiginfjár- og lausafjárkröfu. Auk þess þurfum við að fylgjast vel með tengslaneti fjármálafyrirtækja í örhagkerfi eins og því íslenska. Og við eigum að skoða bandarísku leiðina varðandi aðskilnað viðskiptabankastarfsemi (Forseti hringir.) og fjárfestingarstarfsemi sem felst í því að banna ákveðnum bönkum og sparisjóðum að fjárfesta í hlutabréfum og verðbréfum öðrum en (Forseti hringir.) ríkisskuldabréfum.