140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[17:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið á að ræða þessa skýrslu. Hún er um margt ágæt þótt sá kafli sem fjallar um hina raunverulegu framtíðarsýn mætti vera bæði ítarlegri og ákveðnari.

Nú eru liðin þrjú og hálft ár frá hruni. Þó að margt hafi gerst er margt eftir óunnið og því miður hafa ótal tækifæri runnið okkur úr greipum. Í hruni felast tækifæri til að byggja hlutina upp eins og við viljum hafa þá og eins og okkur hentar. Fjármálakerfið sem við höfum byggt upp er allt of viðamikið. Við erum bara 320 þúsund og við munum ekki standa í alþjóðlegri bankastarfsemi í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nú vinna álíka margir á fjármálamarkaði á Íslandi og í miðri útrásinni árið 2006. Aðeins árin 2007 og 2008 voru starfsmenn á fjármálamarkaði örlítið fleiri, en þá unnu menn við að blása kerfið út. Nú erum við að reyna að vinda ofan af allri vitleysunni. Starfsfólk hér á landi er einnig helmingi fleira miðað við íbúafjölda en annars staðar á Norðurlöndunum. Að hluta til felst auðvitað ákveðinn kostnaður í að vera með kerfi en ég held að hér sé um að ræða verulega ofmönnun.

Nú fara stjórnvöld með stóran hluta bankakerfisins en þeirri spurningu hefur enn ekki verið svarað, að mínu mati, með hverjum stjórnvöld ætla að halda. Ég verð að viðurkenna og ég held að það eigi við um fleiri að það fór um mig hrollur þegar í ljós kom að erlendir vogunarsjóðir eiga að miklu leyti tvo af þremur stóru bönkunum. Í slíkum aðstæðum mega hagsmunir almennra neytenda sín lítils, sérstaklega skuldara. Þeir bera ætíð alla áhættuna í verðtryggðu umhverfi. Fjármagnseigendur eru með belti og axlabönd.

Við höfum mörg undrast ofurhagnað bankanna eftir hrun. Sá hagnaður er að miklu leyti til kominn vegna skulda heimila og fyrirtækja og eignafærslu á þeim afslætti sem gefinn var þegar skuldirnar voru færðar á milli gömlu og nýju bankanna, afsláttur sem að mínu mati átti að ganga til skuldaranna sem urðu fyrir forsendubresti sem hefur ekki verið leiðréttur.

Mikill þrýstingur hefur verið frá kröfuhöfunum á greiðslu arðs og var afhjúpandi að heyra af því á síðustu dögum að ríkið vill líka fá sinn arð og hefur þegar lagt drög að því hvernig eigi að ráðstafa þeim fjármunum. Ekki til þeirra skuldsettu hjá hverjum arðurinn er upprunninn heldur í önnur verkefni. Að því leyti get ég ekki séð að ríkið sé nokkuð skárri eigandi en hrægammarnir í vogunarsjóðunum.

Forseti. Við vorum að mörgu leyti eins og kanarífuglinn í námunni, við vorum fyrsta ríkið sem lenti í krísunni en mörg fylgja nú í kjölfarið. Þetta er vandi á heimsvísu en við verðum að finna lausnir heima. Yfirlýst markmið EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns er eins og brandari í haftalandinu okkar en engu að síður erum við bundin að miklu leyti því regluverki. Bent er á að þó höftunum létti, hvernig sem við förum að því, mun verðtryggingin koma í veg fyrir þátttöku erlendra aðila í áhættukostnaði á fjármálamarkaði. Þetta er enn ein vísbendingin um að verðtryggingin verður að víkja. Hún veldur því einnig að stýritæki Seðlabankans bíta ekki.

Mér fannst athyglisvert að sjá í skýrslunni að þar er bent á að eitt atriði úr neyðarlögunum mætti skoða hvort rétt væri að haldi sér, það er að innstæður verði áfram forgangskröfur. Tryggingarsjóðir eins og þeir eru hugsaðir á Evrópska efnahagssvæðinu ganga ekki upp. Okkur ber skylda til að miðla biturri reynslu okkar í því efni. Þessi hugmynd um tryggingarsjóði gengur auðvitað enn síður upp við íslenskar aðstæður þar sem þrír bankar eru með 95% markaðshlutdeild og það segir sig sjálft að það mun ekki ganga. Yfirlýsingu stjórnvalda um ábyrgð á öllum innstæðum verður að draga til baka, því fyrr því betra og eitthvað verður að koma í staðinn.