140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfis. Eins og aðrir þakka ég fyrir þessa skýrslu. Hún er um margt áhugaverð. Hún segir okkur t.d. að kreppur koma reglulega. Það hefur svo sem verið nefnt hérna af fleirum. Þær hafa ekkert að gera með stór eða lítil, þróuð eða vanþróuð fjármálakerfi, heldur virðast þær koma reglulega.

Það vill svo til að einmitt í dag er frétt á visir.is um að fjárfestar óttist áhlaup á evrópska banka, sérstaklega með útibú í suðurhluta Evrópu. Evrusvæðið fríar okkur því ekki frá svona vandamálum og heldur ekki stærð efnahagskerfisins, Spánar er þokkalega stórt og Ítalíu. Menn hafa af þessu töluverðar áhyggjur. Nánast í níu mánuði hefur verið stöðugur ótti í Evrópu um stöðu fjármálakerfisins. Þetta er því ekki eingöngu á Íslandi.

Bankar búa til peninga. Það gera þeir með því að taka við innlánum og lána peningana aftur út, sumir fara aftur í innlán o.s.frv. Þetta er þekkt. Bindiskyldan vinnur gegn þessu á vissan hátt en þyrfti að vera miklu hærri ef hún ætti virkilega að vinna gegn því að peningar yrðu búnir til í bönkum. En peningar eru búnir til víðar, frú forseti, og þar finnst mér skýrslan bregðast því að það sást einmitt mjög greinilega á Íslandi. Með raðeignarhaldi og krosseignarhaldi og lánveitingum þvers og kruss, eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýndi á síðu einni þar sem var þéttriðið net, þá er hægt að búa til peninga. Það er hægt að búa til gífurlega mikla peninga. Þetta hef ég mörgum sinnum bent á en samt hefur það ekki farið í þessa skýrslu að neinu leyti eða mjög litlu leyti. Almennt séð voru búnir til peningar hjá almennum hlutafélögum, ekki bara bönkum, og svo lánuðu bankarnir út á eigið fé sem ekki var til í venjulegum hlutafélögum. Þannig varð til bóla sem varð sífellt stærri. Þetta er heldur ekkert íslenskt fyrirbæri vegna þess að raðeignarhald og krosseignarhald er leyfilegt um allan heim. Það er til dæmis til gífurlega þéttriðið í Japan.

Það sem þessi skýrsla tekur ekki beint á — í henni er reyndar talað um gjaldeyrishöft og að mjög slæmt sé að hafa þau en að mínu mati er ekki hægt að afnema gjaldeyrishöft meðan við erum með 1 þús. milljarða kr. í eigu erlendra aðila sem ekki vilja eiga krónur á Íslandi. Miðað við útflutning upp á 600 eða 700 milljarða er þetta gífurlega stór tala því að útlendingarnir vilja fá þetta greitt í gjaldeyri og það er hreinlega ekki hægt, ekki nema á einhverjum áratugum nema einhverjir samningar náist við eigendur þessa fjár. Það tel ég vera eitt brýnasta verkefnið ef við ætlum yfirleitt að ná gjaldeyrishöftunum niður. Við verðum að gera það. Það er mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf.

Við getum ekki talað um fjármálakerfið án þess að tala um innstæður. Gefin var út sú yfirlýsing strax eftir hrun af ríkisvaldinu, ráðherrum, að innstæður á Íslandi væru tryggðar. Hér er getið um það, en það er bara yfirlýsing. Það er engin ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi og ég segi það vegna þess að innstæðurnar geta ekki farið neitt en sparifjáreigendur þurfa virkilega að vanda sig við valið á þeim banka sem þeir geyma peningana sína í. Bankarnir hafa orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru með dómum Hæstaréttar þannig að ég held að sparifjáreigendur þurfi virkilega að skoða vel í hvaða banka þeir geyma peningana sína.

Við erum að taka upp nýtt innlánstryggingakerfi með ríkisábyrgð sem ég vara verulega við, sérstaklega vegna þess að það dugar ekki nokkurn skapaðan hlut. Hér hafa margir bent á að innlánstryggingakerfi dugar alls ekki í fjármálakerfi með örfáa banka. Ég hef lagt til að fjárlaganefnd Alþingis veiti hreinlega ríkisábyrgð í fjárlögum á innstæður sem bankarnir gætu svo boðið í, segjum að þeir mundu byrja á 50 milljörðum og fjármálaráðherra mundi bjóða þá út og bankarnir bjóða í það sem þeir mundu vilja borga fyrir þá ríkisábyrgð. Þá gæti fólk lagt inn í bankana, jafnvel verðtryggt, og bundið féð til þriggja ára í trausti þess að ríkið mundi grípa inn í ef bankinn færi á hausinn innan þess tíma. Það er einmitt það sem veldur því að verðtrygging á innlánum er mjög lítið notuð af heimilunum. Það er ekki nema um þriðjungur innstæðna eða minna sem er verðtryggður. Mest af þeim er óverðtryggt og brennur að sjálfsögðu upp í verðbólgunni.

Ég held að menn þurfi að horfa miklu meira á þetta raðeignarhald og krosseignarhald og menn þurfa að horfa miklu meira til þess að innistæður eru ekki tryggðar. Mér finnst framtíðarsýnin að þessu leyti ekki vera nægilega skýr og ég hefði gjarnan viljað sjá hana skýrari.