140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[18:00]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þessa ítarlegu og vel unnu skýrslu eins og komið hefur hér fram nokkrum sinnum. Við höfum á undanförnum missirum farið ítarlega yfir hvað fór úrskeiðis hér á landi við stjórn efnahagsmála og við uppbyggingu fjármálakerfisins og það liggur nú fyrir. Það sem er mikilvægast fyrir framtíðina er að svara því hvað gera þurfi til að draga úr líkum á því að Ísland verði öðru sinni fyrir viðlíka áfalli og varð 2008 eins og segir í skýrslunni.

Eins og allir vita byggir hið alþjóðlega hagkerfi að stórum hluta á frjálsu flæði fjármagns milli landa. Frjálst flæði fjármagns hefur í raun gjörbreytt alþjóðaviðskiptum á mjög skömmum tíma. Þau ríki sem ekki stigu varlega til jarðar og hugðu að þeirri áhættu sem frjálst flæði fjármagns getur haft á efnahagslegan stöðugleika hafa lent í verulegum efnahagsþrengingum. Þetta á ekki síst við um lítil hagkerfi eins og okkar sem eru viðkvæmari fyrir sveiflum á alþjóðamörkuðum vegna þess hve þau eru háð inn- og útflutningi og hversu viðkvæmt hagkerfi er fyrir innstreymi og útstreymi peningafjárhæða sem stærri hagkerfi mundu vel ráða við.

Í þessu samhengi langar mig að vekja athygli á tveimur atriðum í skýrslunni sem vert er að hafa í huga við framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins hér á landi. Fyrra atriðið lýtur að stærð hagkerfisins. Skýrslan brýnir þingheim að taka tillit til samfélagsins sem við búum í, þ.e. fólksfæðar og smæðar markaðarins, við undirbúning löggjafar um fjármálakerfið. Þessi skýrsla er ekki sú fyrsta sem tekur á smæðinni en flestar þær úttektir sem gerðar hafa verið um hrunið benda á hversu mikilvægt er að ráðamenn þjóðarinnar geri sér grein fyrir takmörkunum sínum sem og takmörkum hagkerfisins vegna smæðarinnar.

Það er ánægjulegt fyrir okkur sem höfum skoðað stöðu smáríkja í samfélagi þjóðanna um árabil að nú loksins er tekið tillit til smæðarinnar við stefnumótun stjórnvalda, þeim tækifærum sem fylgja smæðinni sem og þeim veikleikum sem verður að huga að.

Sú var tíðin þegar við sem undirbjuggum stofnun Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands rétt eftir síðustu aldamót að það var nánast tabú eða bannorð að ræða um Ísland sem lítið land, Ísland sem eitt af smáríkjum heimsins, Ísland sem eitt af smærri ríkjum Evrópu. Við fengum jafnt vinalegar ábendingar sem opinberar ákúrur frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar fyrir að ræða um Ísland sem smáríki.

Skýrslan sem hér er til umfjöllunar dregur athyglisverðar niðurstöður af smæð hagkerfisins, hvaða aðgerða við verðum að grípa til ef stjórn efnahagsmála á að byggjast á frjálsum markaðsbúskap Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Lítið en þroskað hagkerfi og fjármálakerfi er í eðli sínu jafnflókið og stórt kerfi, hver þáttur þess er aðeins minni að umfangi. Þetta gerir miklar kröfur til fámennrar þjóðar sem þarf að koma upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts, en það er forsenda þess að rekin sé samkeppnisfær utanríkisverslun. Af þessum sökum er mikilvægt að leita samstarfs um fjármálaeftirlit við nálæg lönd, sem líkt eru sett gagnvart EES/ESB …“

Í þessu samhengi langar mig að nefna seinna atriðið sem vekur sérstaka athygli í skýrslunni en það lýtur að mikilvægi alþjóðasamvinnu til að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu. Eitt af því sem yfirstandandi fjármálakreppa hefur kennt okkur er mikilvægi þess að efla reglubundin samskipti eftirlitsstofnana yfir landamæri til að þær hafi yfirsýn yfir og geti brugðist við fjármálastarfsemi þvert á landamæri ef þurfa þykir. Skýrsluhöfundar benda réttilega á að grundvallaratriði er að til slíkrar samvinnu sé stofnað meðan fjármálastarfsemin gengur sinn vanagang til að hægt sé að grípa inn í ef vanda ber að höndum. Í þessu samhengi bendir skýrslan á að mikilvæg nýjung ryðji sér til rúms með hinu svokallaða Basel III regluverki þar sem eru úrræði sem miða að því að hemja sveifluhneigð og kerfisáhættu fjármálakerfisins. Þessar reglur munu væntanlega koma til framkvæmda á næstu árum hér á landi sem hluti af regluverki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Þær fela einkum í sér kröfur um aukið og betra eigið fé fjármálafyrirtækja, auknar lausafjárkröfur, virkari álagspróf og heimildir handa eftirlitsstofnunum til að setja takmörk á skuldsetningarhlutföll og til að beita öðrum sveifluhemjandi úrræðum til þess að hafa stjórn á fjármálakerfinu sem heild eins og kemur fram í skýrslunni. Þessi úrræði gefa færi á því að koma í veg fyrir ofvöxt eins og var í fjármálakerfinu hér á landi. Mikilvægi fjármálastöðugleika og skilningur á því að taka þurfi í auknum mæli tillit til séraðstæðna í hverju landi fyrir sig liggur til grundvallar þessum nýju reglum sem Evrópusambandið og við væntanlega munum taka upp.

Í lok skýrslunnar tengja höfundar hennar saman þrjá þætti: Í fyrsta lagi mikilvægi alþjóðasamstarfs. Í öðru lagi smæð hagkerfisins og stjórnsýslunnar. Að hvoru tveggja hefur verið vikið hér. Og í þriðja lagi annað sérkenni hagkerfisins hér á landi fyrir utan smæðina, þ.e. sérkenni peningastefnunnar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstæður gjaldmiðill með óstöðugu gengi sem hefur mikil áhrif á breytingar verðlags í landinu er annað sérkenni íslenska hagkerfisins sem án efa er aðgangshindrun gegn erlendri fjárfestingu og erlendri samkeppni, m.a. á fjármálamarkaði hér á landi. Þegar útbreiddri verðtryggingu fjárskuldbindinga er bætt við sérkennalistann er ljóst að ekki verður að óbreyttu auðvelt að fá dreifingu á áhættukostnaði við fjármálastarfsemi hér á landi með erlendri þátttöku.“

Svo segir, með leyfi forseta, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson las (Forseti hringir.) upp rétt áðan — ég er alveg að ljúka máli mínu, frú forseti, en ég vil lesa það upp aftur vegna þess að textinn er svo góður: (Forseti hringir.)

„Til þess að sigrast á þessum vanda mætti hugsa sér að Ísland gerðist aðili að stærri efnahagsheild með sameiginlegan gjaldmiðil og vaxtakjör sem gerði kleift að afnema (Forseti hringir.) verðtrygginguna skipulega.“

Þetta er meginatriði málsins.