140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem hefur verið nokkuð rætt í þinginu en þó kannski ekki sérstaklega lengi miðað við stærð málsins. Ótrúlega lítið hefur verið rætt um kjarna þessa máls, eða það sem þetta snýst um, fyrir utan þessar dyr. Ótrúlega lítið hefur í raun verið rætt um það sem er á ferð í þessu frumvarpi, um efnisleg atriði þeirra tillagna sem vera á með skoðanakönnun um.

Ég vil hvetja alla til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Það hefði verið mun eðlilegra að við sjálf, þingheimur, hefðum byrjað á því að kryfja það inn að beini og kynna okkur hvað þær breytingar þýða, að ekki sé talað um að koma þeim upplýsingum til þjóðarinnar. Hvað þýðir 7. gr. í tillögum stjórnlagaráðs, að allir hafi meðfæddan rétt til lífs? Hvað þýðir það? Þýðir það að fóstureyðingar verði bannaðar? Það kæmi mér að minnsta kosti á óvart ef ekki yrði látið á það reyna fyrir dómstólum ef það ákvæði yrði sett inn í stjórnarskrá okkar Íslendinga.

Við erum einnig með ákvæði um heilbrigðisþjónustuna sem ég hvet ykkur til að skoða. Þar segir í 23. gr.:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Ég held að margir geti fært rök fyrir því að þeir fái ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Spurningin er þessi: Er hægt að ná því fram með því að fara í mál á grundvelli þess að þetta standi í stjórnarskrá og fá þá betri þjónustu? Það yrði grundvallarbreyting frá því sem nú er því þrátt fyrir að við Íslendingar séum með mjög háleit markmið í heilbrigðisþjónustu okkar, og þannig viljum við hafa það, þá er í lögum um heilbrigðisþjónustu fyrirvari um að fjármagn verði að vera til staðar hjá hinu opinbera til að hægt sé að uppfylla þær skyldur.

Gera á skoðanakönnun meðal þjóðarinnar og ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hv. þingmenn stjórnarliðsins greini frá því hverjir hafa komið að gerð þessa spurningalista. Ekki verður annað séð en þessi spurningalisti geri allt annað en uppfylla þau skilyrði sem þarf að gera til slíkra skoðanakannana. Það er hægt að tína margt til. Það er í raun bara ein spurning sem er skýr. Það er alveg grundvallaratriði ef menn ætla að gera skoðanakönnun að spurningarnar séu skýrar og allir skilji þær með sama hætti. Fyrsta spurningin er til dæmis þessi:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Síðan eru tveir valmöguleikar:

„Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

og:

„Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

Virðulegi forseti. Tillögurnar eru 115. Gefum okkur að einhver hafi náð að kynna sér allar þessar tillögur stjórnlagaráðsins og sé mjög sáttur við 30 þeirra en sé einstaklega ósáttur við 15 — hvað á hann þá að kjósa? (TÞH: Sjálfstæðisflokkinn.) — Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson segir að hann eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er hárrétt en hvernig á hann að kjósa í þessari skoðanakönnun? Hvað þýða úrslitin í þessari skoðanakönnun ef við tökum bara þessa spurningu? Því hefur ekki verið svarað.

Hvað gerist ef 51% segir nei? Má þá ekki vera með neitt úr tillögu stjórnlagaráðs, bara ekki neitt? Og hvað ef 51% segir já? Hvaða tillögur af þessum 115 á þá að taka upp? Allar? Ég fer fram á það við hv. þingmenn stjórnarliðsins að þeir komi hingað upp og útskýri þetta því að þetta er kjarni máls.