140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vek athygli á því að hér er ekki neinn stjórnarliði og ég spyr spurninga sem ég vil fá svör við. Við eigum rétt á að fá svör við þessum spurningum. Það er rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að þetta er skoðanakönnun, ekki bindandi, en það breytir því ekki að þetta er líka aðferðafræðilega rangt. Einhver kynni að segja: Er það ekki eitthvert tæknimál? Nei, spurningar verða að vera skýrar ef þú vilt fá fram vilja fólks.

Dæmi um skýra spurningu er 5. spurning:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Já eða nei — þetta er skýr spurning. Þetta er eina spurningin sem uppfyllir skilyrði um skýrleika og hér ættu allir að standa jafnt hvað það varðar að skilja spurninguna. Þegar við fáum niðurstöðu í þessa spurningu þá vitum við að 48% segja já og 52% nei eða öfugt, eða hvernig sem það verður.

Stóra málið er að það verður að upplýsa hvað liggur til grundvallar, hvernig á að skilja þessar spurningar og hvað verður gert við niðurstöðuna. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að þetta er svona „skuespil“, ef ég leyfi mér að sletta, menn geta gert það sem þeir vilja hver sem niðurstaðan verður. Hv. þm. Illugi Gunnarsson gæti til dæmis komið hingað og sagt: Ég túlka þetta á þann veg að fylgi sé við 18. gr. og 28. gr., hann getur fært rök fyrir því en einhver annar getur sagt allt annað. Þetta er fullkomin markleysa.

Ég var að vonast til þess að þegar hæstv. forsætisráðherra fær sér hlé — og hér kemur hv. þm. Baldur Þórhallsson sem er í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og þekkir þessi mál vel — kæmi hingað inn maður með fagþekkingu. Ég var að vonast til þess að menn mundu kalla til þá sérfræðinga sem eiga að þekkja þetta og þeir mundu útskýra þetta fyrir hv. stjórnarliðum.