140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta skjal virðist vera þannig upp byggt, af þeim sem leggja breytingartillöguna fram, að það er augljóst að þeir hafa ekki treyst sér til að fara einungis fram með eina spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar eða ekki að nýrri stjórnarskrá. Það er nefnilega mikið misræmi í þessum tillögum eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur farið yfir. Fólk getur valið á milli tveggja kosta, já og nei, hvort það vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar, en nú þegar er tekið til starfa sérfræðingateymi sem er að lesa tillögurnar yfir og spurningarnar eru því þegar orðnar úreltar. Sérfræðingateymi skipað lögfræðingum var fengið til að vinna fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og á að gera tillögur að breytingum á drögunum sem komu frá stjórnlagaráði og auk þess að skrifa nýja greinargerð. Um leið og þessi sérfræðingahópur hefur tekið til starfa eru spurningarnar orðnar úreltar, og það mun gerast næstu daga.

Af því að við erum að byrja þessa umræðu aftur á þessum degi langar mig að vekja athygli á því að spurningar nr. 2 og 3 eru teknar beint upp úr stefnuskrá Vinstri grænna, ákvæðin um náttúruauðlindirnar og þjóðkirkjuna. Spurningar 4 og 5 eru teknar beint upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar með persónukjör í kosningum og jafnan rétt atkvæða. Hreyfingin fékk svo að eiga 6. spurninguna þar sem hlutfall kosningabærra manna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki dýpra en svo, virðulegi forseti, en þarna opinberaðist það hvernig þessi ríkisstjórn vinnur.

Ríkisstjórnin þykist vera að fara af stað með eitthvert plagg sem drög að nýrri stjórnarskrá en það er allt tekið upp úr pólitískum stefnuyfirlýsingum ríkisstjórnarflokkanna. Það mætti halda að þau væru að ruglast á þjóðaratkvæðagreiðslu og þingkosningum því að í þingkosningum er kosið um stefnuskrá.