140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi sérfræðingateymi sem á að fara yfir hvað tillögur stjórnlagaráðs þýða. Þær hafa verið ræddar hér í þinginu og er augljóst að menn skilja þær ekki á sama hátt. Alltaf þegar við erum í lagasetningu, ég tala ekki um þegar lagðar eru fram tillögur um stjórnarskrána, hljóta menn að skoða það mjög vel hvað hver breyting þýðir. Það hefur ekki enn verið gert. Núna er verið að kalla menn saman í þá vinnu. Hefði ekki verið nær að einhver hefði sagt: Heyrðu, eigum við ekki að byrja á því? Þegar við erum búin að vinna þá vinnu þá stígum við næsta skref. Ekki þessi ríkisstjórn. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er búin að sitja yfir þessu máli lon og don í fleiri mánuði og ekki er enn búið að ljúka við þessa grunnvinnu, sem er algerlega fáheyrt.

Hv. þingmaður nefndi fleiri spurningar. Önnur spurningin er:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Sérfræðingar hafa skrifað greinar um mismunandi skilning á hugtakinu þjóðareign. Það er ekki til nein óumdeild skilgreining á því hugtaki, því fer víðs fjarri. Fræðimenn hafa til dæmis skrifað á þann veg að hugtakið þjóðareign megi til dæmis nota um íslenska landsliðið. Er það það sem átt er við? Ég hef ekki hugmynd um það. Ég get ekki ímyndað mér að því sé öðruvísi fyrir komið hjá því fólki sem á að taka afstöðu til þess, sem er þjóðin.

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Hvað þýðir það? Ef menn segja nei við því, hvað á þá að gera? Á þá kannski að setja í stjórnarskrá ákvæði um að þjóðkirkja megi aldrei vera í landinu? Er það það sem á að setja inn? Hægt er að túlka það með ýmsum hætti og í raun allar aðrar spurningar nema spurningu nr. 5.