140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefði átt að halda þannig á þessu máli að sú tillaga sem á að senda til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu væri vel undirbúin, t.d. hefði átt að vera búið að vinna þá vinnu sem sérfræðinganefndinni er ætlað að vinna þannig að það lægi nákvæmlega fyrir þegar Alþingi afgreiddi málið frá sér hvað stæði til að senda til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Eftir því sem spurningarnar eru óljósari því meira svigrúm hafa stjórnvöld til að túlka niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki hægt að neita því og ég hef ekki heyrt stjórnarliða, hv. þingmenn, neita því af neinni sannfæringu.

Ýmsar af þeim spurningum sem hér er verið að leggja upp með eru enn býsna loðnar þegar kemur að því að lesa út úr þeim einhver skilaboð til okkar í þessari stjórnarskrárvinnu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að dæmi eru um atkvæðagreiðslur eins og þær sem hún nefndi sérstaklega þar sem niðurstaðan hefur síðan orðið önnur en varð í atkvæðagreiðslunni sjálfri. Það er þetta sem ég á við með því að ekki eigi að fara fram með málið með þessum hætti. Ég tel að verið sé að grafa undan því mikilvæga tæki sem atkvæðagreiðslur hjá almenningi eru, þjóðaratkvæðagreiðslur eða íbúakosningar innan sveitarfélaga, ef það gerist aftur og aftur að sú niðurstaða sem þar fæst skiptir í sjálfu sér litlu sem engu máli. Það er ábyrgðarhlutur fyrir okkur stjórnmálamenn, sem erum að ræða um stjórnarskrána, grunnlög samfélagsins, að verið sé að leggja upp með það að senda til þjóðarinnar — ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, hálfbakaðar hugmyndir og um margt illa fram settar spurningar. Ætlast er til að þjóðin taki afstöðu til allra tillagna sem koma frá stjórnlagaráði, (Forseti hringir.) með eða á móti, alveg óháð því hvort menn geti verið sáttir við hluta þeirra en ósáttir við einhvern annan hluta.