140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt þarna naglann á höfuðið. Það er eins og margir séu hreint ekki alveg með það í kollinum til hvers stjórnarskrá er og hvaða hlutverki hún gegnir. Ég nefndi áðan í svari við andsvari að stjórnarskrá væri sáttmáli borgaranna, væri grunnlög í lýðræðisríki. Eins og drögin eru, sem við sjáum liggja fyrir núna, er miklu frekar um stefnuyfirlýsingu að ræða, réttindin sem hafa verið skrifuð inn í þau drög eru af þeim toga að þau munu skapa stórkostleg vandræði þegar kemur að dómaframkvæmd. Við verðum að muna að stjórnarskráin er til þess að verja grunnréttindi borgaranna. Þegar við komum að atriðum eins og að allir hafi rétt til lífs, minnir mig að það hljómi, eða að allir hafi rétt til þess að lifa með reisn, og einhverjum finnst hann ekki lifa með reisn, getur hann þá með réttu haldið því fram að um stjórnarskrárbrot sé að ræða og farið til dómstólanna? Nei, ég held ekki. Ég held að það að halda inni almennri lýsingu á einhverjum réttindum sem hafa ekki lagalegan grunn þynni út önnur réttindi sem eru gríðarlega mikilvæg og hefur verið barist fyrir í gegnum aldirnar, frá upplýsingunni getum við sagt. Á þessum grunni er ég á móti því hvernig stjórnarskráin hefur verið endurskrifuð.