140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:02]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er algjör grundvallarspurning. Ég er þeirrar skoðunar að einhvern veginn verðum við að ná okkur út úr þeim ógöngum sem er búið að koma þessu máli í. Ég er ekki viss um að sú spurningakönnun sem hér er verið að leggja til hjálpi málinu á nokkurn hátt. Við ættum að fá okkar helstu sérfræðinga, jafnvel einhverja sérfræðinga erlendis frá, til að fara yfir stjórnarskrána, merkja við það sem gæti þarfnast breytinga við og annað slíkt, bera það saman við þá miklu vinnu sem stjórnlagaráð hefur þegar farið í gegnum og þá gætum við breytt í samræmi við það þeim hlutum sem þarfnast breytinga við. Það að endurskrifa þetta allt saman, bæta inn öllum þessum óáþreifanlegu réttindum sem ég hef nefnt hérna, rétti til að lifa með reisn og þess háttar, kemur ekki til greina. Slíkt ætti að taka út.

Ég held að það væri hægt að ná ágætissamkomulagi í þinginu um slíka málsmeðferð. Þrátt fyrir að þetta mál sé keyrt áfram af hörku gera margir stjórnarliðar sér grein fyrir því að þessi málsmeðferð gengur ekki upp og það sama á við um þetta mál. Það er ekki okkur á Alþingi til framdráttar hvernig staðið hefur verið að þessu öllu saman.