140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun svara hv. þingmanni eftir bestu getu en tek þó aftur fram að ég er alveg örugglega ekki rétti maðurinn til að spyrja þessara spurninga vegna þess að umfjöllun um framhald málsins hefur ekki verið mjög mikil í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Vilji stendur til þess af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að láta vinna frumvarp sem lagt verði fyrir þingið næsta haust. Meiri hlutinn lítur svo á að þetta tvennt sé undirbúningur undir þá frumvarpsgerð, annars vegar vinna sérfræðinganna sem við höfum rætt nokkuð um og hins vegar þessi svokallaða þjóðaratkvæðagreiðsla í haust. Þetta tvennt mundi síðan leiða til þess að kominn væri efniviður sem unnið yrði úr og frumvarp lagt fyrir þingið næsta vetur. Það fer svo bara eftir ákvæðum þingskapa og stjórnarskrár um það hvernig með það er farið. Allt gott um það.

Ég vek athygli á því, og það vefst fyrir hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni eins og fleirum, hvers vegna verið er að efna til atkvæðagreiðslu um tillögur sem annaðhvort verða breyttar eða eru í þann veginn að fara að breytast næsta haust. Það er það sem er óskiljanlegt. Það hefði verið skiljanlegt að láta vinna sérfræðivinnuna fyrst og efna síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu eða efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og láta sérfræðivinnuna síðan fara fram, en það er auðvitað dálítið mótsagnakennt, svo ekki sé meira sagt, að gera þetta hvort tveggja á sama tíma.

Ég verð hins vegar að játa það, eins og ég gerði hér í upphafi, að ég er örugglega ekki rétti maðurinn til að svara nánar um hvernig vinnulaginu er háttað. Ég verð að segja að þrátt fyrir að nokkrum spurningum um það hafi verið svarað hefur það kannski ekki verið (Forseti hringir.) skýrt nægilega vel að mínu mati.