140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti Ég get ekki annað en tekið undir þær áhyggjur sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason lýsir í ræðu sinni þó að þær séu settar fram í spurningaformi. Ég ætla ekki að fullyrða um tilgang manna með því að breyta um stefnu í þessu en ég held að það sé nokkuð rétt lýsing á því sem fram hefur farið á vettvangi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að fram eftir vetri beindist vinnan fremur í þá átt að greina og vinna lagfæringar á tillögum stjórnlagaráðs með það að markmiði að þær yrðu betri, yrðu fullbúnar. Í þeim tilgangi áttu sér stað samtöl seint á síðasta ári eða í kringum jól við fulltrúa Lagastofnunar Háskóla Íslands með það að markmiði að þeir tækju að sér það sem kallað var álagspróf á tillögur stjórnlagaráðs með það að markmiði að greina veikleika út frá lögfræðilegum eða lagatæknilegum sjónarhóli.

Það varð síðan ákveðin stefnubreyting þegar í ljós kom að Lagastofnun var ekki tilbúin að vinna málið nákvæmlega á þeim forsendum sem meiri hlutinn lagði upp með og horfi ég þá bæði til tímans sem sú vinna átti að taka og hins vegar til umboðs eða verklýsingar. Bara svo að því sé haldið til haga vildi Lagastofnun skoða málin í víðara samhengi en að binda sig bara við tillögur stjórnlagaráðs eins og þær liggja fyrir.

Þá var hugmyndinni um álagspróf (Forseti hringir.) og öðru slíku skyndilega vísað til hliðar og þjóðaratkvæðagreiðsla hið allra fyrsta varð ofan á sem meginstefnan af hálfu meiri hlutans.