140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Hann hefur sýnt stjórnarskrármálinu mikinn áhuga enda sendi hann stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd athugasemdir í mörgum liðum. Það má segja að hann hafi endurskrifað þær tillögur sem komu frá stjórnlagaráði, svo miklar athugasemdir gerði hann við þær.

Þingmaðurinn fór í ræðu sinni yfir það sem er komið inn í mannréttindakaflann sem heitir núna Mannréttindi og náttúra. Mig langar að spyrja þingmanninn að því sem kemur fram að mig minnir í 36. gr. tillagnanna, um að dýr skuli hafa rétt samkvæmt stjórnarskrá. Lítur þingmaðurinn svo á að dýravernd eigi að vera bundin í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands? Er það ekki eitthvað sem er í samfélagssáttmálanum, að þeir sem halda dýr skuli sjá um að þau hafi nóg að bíta og brenna? Þarf að binda hina almennu sátt í samfélaginu um dýravernd í stjórnarskrá? Mér finnst stjórnlagaráð hafa farið langt út fyrir sinn ramma varðandi skilninginn á stjórnarskránni. Þetta er eitt dæmi um það sem er fáheyrt að hafi ratað inn í tillögur stjórnlagaráðs. Það verður mjög gaman að sjá hvort lögfræðiteymið sem nú hefur fengið tillögurnar til yfirlestrar breyti þessu ekki.

Mig langar einnig að spyrja þingmanninn: Frelsi fjölmiðla er tryggt í þessum drögum, að þeir skuli vera frjálsir og ekki háðir eigendum sínum. Er ekki á sama hátt og með dýraverndina ansi langt seilst og komið út fyrir allan stjórnskipunarrétt og venju ef tryggja á líka fjölmiðla í stjórnarskrá? Samkvæmt mínu mati eru það fyrst og fremst réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu sem eiga að vera tryggð í stjórnarskrá.