140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hefur verið rætt áður í þessari umræðu. Mér finnst þetta dæmi um að menn séu að útþynna stjórnarskrána, gera hana minna virði, lítilsvirða hana. Dýr, hvað er dýr? Ég nefndi í umræðunni að geitungur er dýr. Yrði það dómsmál fyrir Hæstarétti ef ég dræpi geitung? Þyrfti ég að verja mig með því að það hefði verið sjálfsvörn?

Ég held að menn hafi farið þarna út á mjög skakka braut. Þær eru margar góðar hugmyndirnar sem koma frá stjórnlagaráði en ekki þessi. Allt frá því að þessi drög komu inn í þing í október, frú forseti, hefði ég viljað að Alþingi ræddi þau efnislega, við alþingismenn áttum að ræða þau efnislega. Þegar við værum búin að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu um hvað eigi að þynna stjórnarskrána mikið út og gera lítið úr henni gætum við lagt það fyrir þjóðina til afgreiðslu, þegar þetta væri orðið nokkurn veginn heilsteypt plagg og hefði fengið almenna umræðu, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Það er dálítið merkilegt að Ríkisútvarpið sem er opinber fjölmiðill sá ástæðu til að leyfa hæstv. forsætisráðherra að ræða um að á Alþingi væri málþóf, sem ég mótmæli mjög eindregið, frú forseti. Þetta sama Ríkisútvarp sem á að vera upplýsandi og koma með öll sjónarmið hefur ekki rætt um þá efnislega umræðu sem hér á sér stað um stjórnarskrána. Fólk er í raun engu nær nema þeir sem fylgjast beint með umræðunni, sem eru sem betur fer þó nokkuð margir. En fjölmiðlar og skordýr og annað slíkt finnst mér að eigi heima í almennum lögum.