140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að við erum ekki laus við það á Íslandi að mannréttindi séu brotin á fólki. Mér finnst það mjög mikil afturför ef við ætlum að víkka út stjórnarskrána þannig að það gildi minna þegar mannréttindi eru brotin á fólki. Það er sem betur fer, vona ég, ekki mjög algengt en engu að síður finnst mér að við eigum að einbeita okkur að því að þetta séu mannréttindi, mann-réttindi. Ég á eftir að koma inn á til hvaða hóps stjórnarskráin höfðar. Um hvaða fólk er talað í stjórnarskrá? Það er eitt af því sem er líka út og suður í þeim tillögum sem koma frá stjórnlagaráði. Ég vil undirstrika, frú forseti, að ég er þar með ekki að segja að tillögur stjórnlagaráðs hafi verið slæmar, ekki allar. Sumar þeirra eru mjög góðar en aðrar mjög slæmar. Það að senda þær til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu er mjög slæmt. Með því er eiginlega verið að skaða þessa vinnu alla vegna þess að eitt atriði getur valdið því að fólk getur engan veginn kosið að segja já. Þá getur verið að allri vinnunni verði varpað á haug vegna eins atriðis sem Alþingi hefði getað tekið út eða lagað.

Mér finnst þetta vera vanvirðing við vinnu stjórnlagaráðs og líka vanvirðing við borgarann, kjósandann sem heldur að hann sé að greiða atkvæði um stjórnarskrána sína. Þetta er vanvirðing við núgildandi stjórnarskrá og væntanlega stjórnarskrá líka þegar menn skauta svona létt yfir hana.