140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru óneitanlega ágætisrök þegar vitnað er í núgildandi stjórnarskrá. Auðvitað verðum við að fylgja þeirri stjórnarskrá, hún er þrátt fyrir allt enn í gildi og þingmenn eru eiðsvarnir að stjórnarskránni þannig að það er hárrétt hjá hv. þingmanni. En það er kannski bara enn ein áminningin um hversu óheppilegt og jafnvel skaðlegt skipulagið á þessu er vegna þess að ef við ættum að gera þetta almennilega og í samræmi við það sem hv. þingmaður telur að stjórnarskráin mæli fyrir um þyrfti umræðu í miklu lengri tíma en eftir er af þessu þingi. Eins og ég nefndi áðan eru þetta vel yfir 100 greinar og hver og ein grein vekur ýmsar spurningar, enda hefur hver og ein grein í stjórnarskrá mjög mikil áhrif á öll önnur lög. Fyrir vikið þætti mér ekki óeðlilegt að menn ræddu hverja grein fyrir sig og það komast svo sem ekki miklar vangaveltur fyrir í fimm mínútna ræðu.

Það virðist ómögulegt fyrir þingið að fara yfir þetta allt saman efnislega og það gefur kannski tilefni til þess að við endurskoðum hvernig að þessu hefur verið staðið.

Hvað varðar athugasemd hv. þingmanns um að hann saknaði þess að fulltrúar í stjórnlagaráði tækju þátt í umræðunni, þá gef ég mér að einhverjir þeirra telji það óþarft fyrr en kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um drögin eða tillögurnar. En það nægir sem sagt ekki að mati hv. þingmanns að farið verði af stað með umræðuna (Forseti hringir.) þegar og ef kemur að þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.