140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom einmitt að þeim kafla í stjórnarskránni sem er afar umfangsmikill og var síðast í endurskoðun af hálfu þingsins. Um hann var þverpólitísk samstaða, þá er ég ekki að geta þeirra breytinga sem urðu 1999 og voru mjög miklar líka vegna kjördæmaskipanarinnar. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er tiltölulega óumdeildur eins og hann er í dag. Af hverju er hann tiltölulega óumdeildur? Hann hefur reynst okkur vel í dómaframkvæmd hér heima í mörgum dómum, dómum sem hafa m.a. fallið gegn sitjandi ríkisstjórnum, bæði núverandi ríkisstjórn og þeirri sem var á undan. Mannréttindakaflinn hefur reynst ágætlega og er dæmi um vinnubrögð sem eru að mínu mati til farsældar fyrir það hvernig við getum unnið að enn betri stjórnarskrá. Það er það sem ég er að reyna að koma hér á framfæri.

Ég ítreka að það er alveg ömurlegt að hlusta á hvernig stjórnarþingmenn, þegar þeir þramma hingað upp í þau fáu skipti sem þeir sýna sig í salnum, leyfa sér að halda því fram að stjórnarskránni hafi aldrei verið breytt. Mannréttindakaflinn er akkúrat dæmi um það hvernig hægt er að vinna þvert á flokka í samvinnu við fræðimenn og þá sem eru úti á akrinum og vinna m.a. að því hvernig hægt er að breyta þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar þannig að þau þjóni samfélaginu til lengri tíma. Mér finnst þetta algjörlega óskiljanlegt af því að það er ekki allt ómögulegt í tillögum stjórnlagaráðs, síður en svo. En varðandi mannréttindakaflann skil ég ekki hvernig hægt er að breyta honum í þá veru sem nú liggur fyrir í tillögum stjórnlagaráðs.

Ég tel það algjörlega fráleitt að við verðum með allt öðruvísi mannréttindakafla en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Ég minni á að þetta er einmitt sá kafli stjórnarskrárinnar, eins og ég gat um áðan, sem hefur reynst Íslendingum vel (Forseti hringir.) þegar þeir hafa þurft að standa frammi fyrir ríkisvaldinu og verja réttindi sín á grundvelli mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar.