140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þessa svars langar mig til að vísa í þessa ætluðu 13. gr. sem fjallar um eignarréttinn, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.“

Svo þegar farið er í greinargerðina kemur fram að stjórnlagaráð hafi fljótt orðið sammála um að halda fyrstu málsgreininni óbreyttri eins og hún er í núgildandi stjórnarskrá en ákveðið að fella út aðra málsgreinina sem takmarkar rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi og hlut í atvinnufyrirtækjum á Íslandi. Hvers vegna skyldi það hafa verið gert? Jú, því að þessar stjórnarskrárbreytingar lúta nær allar að því að við Íslendingar erum í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Hvar er betra að ráðast til atlögu en við stjórnarskrá Íslands til að fella brott þau réttindi sem við njótum enn sem þjóð? Ég hef bent á að allt ber að sama brunni í þeim efnum.

Hér vísar stjórnlagaráðið í einhverja jafnræðisreglu, að Íslendingar megi ekki eiga neitt umfram útlendinga. Ég vísa þessu algjörlega á bug því að eins og ég hef verið að benda á höfum við t.d. bremsu varðandi fiskveiðiauðlindina okkar í gegnum lög um erlenda fjárfestingu, að útlendingar megi ekki eiga meira í fiskveiðifyrirtækjum en 49%.

Þarna er stjórnlagaráð tilbúið að fórna þessum gríðarlegu hagsmunum fyrir Evrópusambandið, bara til þess að koma þessu í gegn. Þarna verðum við að standa vörð um þjóðarhagsmuni. Þarna verðum við sem löggjafi að gæta almannahagsmuna og kunna að verja okkur. Út af því að þingmaðurinn fór yfir eignarréttinn varð ég að koma þessu að.

Í ljósi þess sem stendur í greininni (Forseti hringir.) er hreinlega verið að boða eignaupptöku út af tómum ríkissjóði en eignarrétturinn heldur sér náttúrlega nema fullt verð komi fyrir, en þetta er stórhættulegt ákvæði.