140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef velt því fyrir mér hvað Sjálfstæðisflokkurinn vilji í þessu máli. Einhvern tíma var fullyrt þegar ákveðið var að stofna stjórnlagaráð að það þyrfti að kjósa upp á nýtt. Mig minnir að formaðurinn hafi rætt eitthvað í þá veru. Ef kosið hefði verið upp á nýtt hefði stjórnlagaþing væntanlega tekið til starfa með öllu því hafaríi. Mér þætti vænt um ef hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir svaraði þessari spurningu.

Ég var reiðubúinn á sínum tíma að taka þátt í skipun stjórnlagaráðs. Ég vildi halda áfram á þeirri vegferð sem var hafin, ekki eyðileggja þá vinnu sem hafði farið fram, en það var með því skilyrði að Alþingi fjallaði efnislega um málið.

Nú tel ég að hv. þingmaður sé sammála mér um að sú efnislega umræða um málið hafi ekki farið fram. Hún kom að því í ræðu sinni. Mig langar að benda henni og öðrum þingmönnum í salnum, sem er fjölskipaður, á breytingartillögu frá Hreyfingunni. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögu stjórnlagaráðs.“

Þetta er tillaga frá Hreyfingunni sem var kolfelld á Alþingi með 42 greiddum atkvæðum á móti, sex sögðu já, níu sátu hjá. Telur þingmaðurinn að núna sé verið að uppfylla þessa (Forseti hringir.) tillögu Hreyfingarinnar?

Ég get skilið hana eftir hér.