140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að alþingismenn eigi almennt að virða þrígreiningu ríkisvaldsins. Þegar Hæstiréttur dæmdi stjórnlagaþingskosninguna ógilda gerði hann það í rauninni ekki sem hinn æðsti dómstóll, heldur sem einhvers konar stjórnsýslunefnd eða æðra úrskurðarvald á stjórnsýslustigi. Því miður ber það vott um hve illa lögin voru úr garði gerð hjá þeim þingmönnum sem lögðu þau til. Á því ber ríkisstjórnin ábyrgð.

Ég reikna ekki með því að ég og þingmenn Sjálfstæðisflokksins náum saman um þá ráðatilhögun.

Ég benti á breytingartillögu sem var lögð fram við þetta tilefni. Þá komu þingmenn Hreyfingarinnar og sögðu: Við viljum leggja fram þá breytingartillögu að áður en Alþingi fái að fjalla um frumvarpið, sem á að koma frá stjórnlagaráði, fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Sú tillaga var felld. Það er það sem ég er að benda á. Nú á hins vegar að framkvæma það sem Hreyfingin fór fram á og var fellt með 42 atkvæðum. Það er það undarlega í þessu öllu saman. (Gripið fram í.) Þá komum við að því hvort ástæða þess að við erum hér séu pólitísk hrossakaup. Ég er ekki reiðubúinn að standa að slíku.