140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði áðan að tillaga Hreyfingarinnar væri úrelt því að hún var felld, hún á ekki lengur við. Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að eftir að þessi tillaga var felld kemur ríkisstjórnin bakdyramegin að þinginu. Hún segir fólki ekki algjörlega frá því hvernig hún hefur hugsað þetta mál.

Ég held að það sé verulegt umhugsunarefni fyrir forseta þingsins hvort sú leið sem við erum að ræða núna sé einfaldlega þingtæk. Þingi hefur áður hafnað tillögu Hreyfingarinnar þess efnis að farin verði þessi leið, en allt skal gert til að halda lífi í ríkisstjórninni — allt skal gert til að hún þrauki næstu 11 mánuði. Til þess er leikurinn gerður og við vitum þetta öll sem höfum fylgst með umræðum og þeim samræðum sem eiga sér enn stað. Mér skilst á Hreyfingunni að klukkan tifi, mér sýnist hún tifa enn hjá Hreyfingunni því að hún ætlar að veita ríkisstjórninni tækifæri til að ýta þessu í gegnum þingið. Tillaga sem var felld af þinginu á núna að verða samþykkt af þinginu. Mér finnst þetta ekki mjög lýðræðislegt. Þetta er ekki í anda þess sem núverandi og núgildandi stjórnarskrá segir til um.

Enn og aftur sjáum við merki um að við höfum ekki nægilega sterkt löggjafarvald sem getur staðið í fæturna gagnvart svo yfirþyrmandi ríkisstjórn sem knýr allt í gegn með offorsi. Við sjáum það aftur og aftur í hverju einasta máli og maður spyr sig: Af hverju er ekki hægt að semja um þessa hluti? Af hverju er ekki hægt að taka ákveðna hluti og ræða í það minnsta við okkur? Eða eins og hv. þingmaður Lilja Mósesdóttir sagði: Af hverju er ekki einu sinni hægt að ræða við fólkið hér um tillögur eða spurningar í þennan spurningavagn sem á að leggja fram? Nei, það er ekki hægt. Það er ekki einu sinni hægt að rétta litlafingur í áttina að þeim sem hér hafa tjáð hinar ýmsu skoðanir. (Forseti hringir.) Það er hægt að fara yfir fjöldamörg önnur mál sem ríkisstjórnin ætlar að þjösna í gegnum þingið á þeim grundvelli einum að lafa á þeim veldissprota sem hún hangir svo ákaft í.