140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hingað til hef ég rætt efnislega þá breytingartillögu sem liggur fyrir þinginu um þær spurningar sem á jafnvel að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu ekki seinna en 20. október á þessu ári. Ég hef lagt fram breytingartillögu við þá tillögu. Hún kveður á um að samhliða kosningu um þær spurningar sem meiri hlutinn hefur lagt til að fari fram verði vilji þjóðarinnar til aðildarviðræðanna við ESB kannaður og hún spurð hvort hún vilji halda því aðlögunarferli áfram. Það er að koma betur og betur í ljós í þinginu að fleiri og fleiri eru að komast á sömu skoðun, nú síðast í dag upplýsti hæstv. innanríkisráðherra með afgerandi hætti að hann teldi að þetta hefði verið langversti tíminn sem Íslendingar hefðu getað valið sér til að fara af stað með aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Tel ég þar með að breytingartillaga mín hafi hér stuðning vísan.

Ég þarf ekki að fara yfir það, fleiri úr stjórnarliðinu hafa lýst þessari skoðun sinni, hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar. Hæstv. umhverfisráðherra lýsti einnig þeirri skoðun sinni að það þyrfti að kjósa um að minnsta kosti eitthvað í Evrópusambandsumsókninni fyrir næstu kosningar. Ég tel að haustið sé ákjósanlegur tími til að fara þessa leið. Úr því að ríkisstjórnin ætlar að keyra þetta mál með offorsi í gegnum þingið, að fara með þennan spurningavagn af stað, eigi að bæta breytingartillögu minni við og kjósa samhliða um þessi mál.

Frú forseti. Ég segi þetta fyrst og fremst í ljósi þess að 65% þjóðarinnar vilja að stjórnvöld hætti þessu aðlögunarferli. Ég segi þetta líka vegna þess að þá vaknar kannski veik von hjá ríkisstjórninni um að það verði einhver þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef þessar tillögur fara óbreyttar í gegnum þingið og í þjóðaratkvæðagreiðslu er ég mjög hrædd um að kosningaþátttakan verði mjög dræm vegna þess að ekki verður kosið um endanlegt plagg heldur einhverjar tillögur sem núna fá meðferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hjá teymi lögfræðinga sem fengið hefur verið til að fara yfir drögin.

Ég gæti lesið upp allar þessar ágætu tillögur frá stjórnlagaráði en ég undrast mest af öllu þann hluta draganna sem snýr að mannréttindum og náttúru. Ég hef undrað mig á ýmsu sem hér er komið inn, til dæmis það hvernig gildistöku Árósasamningsins er laumað inn í stjórnarskrá Íslands. Þegar 35. gr. draganna er skoðuð stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.

Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.

Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á meginreglum umhverfisréttar.“

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi var einmitt þessi lagagrein sem snýr að Árósasamningnum til umfjöllunar. Með harðfylgi okkar í stjórnarandstöðunni tókst að hindra að erlendir aðilar hefðu málskotsrétt hér á landi og aðgang að dómstólum. Þannig kom frumvarpið inn til breytinga, það átti að hleypa hér inn erlendum aðilum í kæruferli okkar og að dómstólunum. Sem betur fer náðum við að stoppa það því að hvergi í Evrópu var búið að lögfesta þessa opnu aðild að umhverfisrétti. Jú, í Hollandi, en hollensk stjórnvöld voru búin að draga það til baka og fella úr sínum lögum, einmitt vegna ásóknar aðila sem starfa við það eitt að vera stækir umhverfissinnar á heimsvísu. Við Íslendingar þekkjum til dæmis Greenpeace í því efni.

En það dugar ekki til, stjórnlagaráð skilar tillögum sínum af sér og svona er þessi lagagrein í frumvarpsdrögunum en það er búið að breyta lögunum í þessa átt, það er til almenn lagasetning um þetta atriði. Þetta sýnir, (Forseti hringir.) þegar maður les þetta plagg, að það mætti líklega stytta þetta um einn þriðja vegna þess að nú þegar er ákvæði í almennum lögum um þessi atriði.