140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir verðum seint taldar vera á sömu skoðun um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að klára þær, það má kalla mig viðræðusinna en fyrirvarar mínir hafa alltaf lotið að sjávarútveginum. Við getum tekið Evrópusambandsumræðuna síðar.

Hv. þingmaður vill að þjóðin kjósi nú þegar um hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram. Og það er skiljanlegt. Það er skiljanlegt að hv. þingmaður haldi þessu sjónarmiði uppi, m.a. út af því sem enginn maður getur verið blindur á, að aðstæður í Evrópu eru mjög erfiðar eins og víða annars staðar, t.d. í Bandaríkjunum. Það er nokkuð sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Ekki síður er það skiljanlegt vegna þess að það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig ríkisstjórnin sjálf hefur staðið að aðildarumsókninni. Hún hefur ekkert gert, alls ekkert til að sameina þjóðina um ferlið eins og við sjálfstæðismenn lögðum til strax í upphafi. Við vissum að þetta yrði viðkvæmt mál hjá þjóðinni, eðlilega. Það eru skiptar skoðanir um málið sem við verðum að virða. Þess vegna töldum við sjálfstæðismenn brýnt að þjóðin yrði með í upphafi, að hún mundi samþykkja að við færum af stað í aðildarviðræður. Það var ekki samþykkt. Það er enn eitt dæmi um yfirganginn í ríkisstjórninni sem bitnar sárlega á samfélaginu sem er oft og tíðum allt of klofið í þessu máli.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um að það sé betra að þátttaka verði drjúg í slíkri könnun um spurninguna hvort halda eigi aðildarviðræðum áfram, þótt þingið sem slíkt sé ekki bundið slíkri könnun. Verður góð þátttaka ekki best tryggð með því að leggja slíka spurningu fyrir þjóðina samhliða þingkosningum?