140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að ég deili því með ansi mörgum landsmönnum að ég vildi að þingkosningar hefðu nú þegar farið fram. Ég ber enn þá þá von í brjósti að ríkisstjórnin springi fyrir þann tíma sem boðaður er fyrir næstu kosningar, þ.e. í apríl á næsta ári. Auðvitað verður spurningin um aðildarumsóknina að ESB tekin upp í næstu þingkosningum ef svo ber undir. En á meðan ekki er fyrirséð að ríkisstjórnin springi og hún geti haldið sér á valdastólum alveg fram á vor 2013 er alveg orðið tímabært að þjóðin fái að segja álit sitt á ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi það sérstaklega í ljósi þess sem kom fram í umræðum í dag í fyrirspurnatíma þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tjáði þingi og þjóð að nú þegar hefði farið fram neyðarfundur í ríkisstjórninni vegna ástandsins í Grikklandi og á evrusvæðinu. Ríkisstjórn Íslands heldur neyðarfundi, ríkisstjórnarfundi og efnahagsráðherrafundi, eða hvað það ágæta ráð heitir nú, til að undirbúa sig fyrir það hvað gera eigi hér á landi ef evran hrynur, ef Grikkland gengur út úr evrusamstarfinu, sem dæmi.

Með annarri hendinni er verið að halda neyðarfundi vegna ástandsins núna í Suður-Evrópu sem allir sjá en á meðan er hin höndin að sækja um aðild að þessu hrunda sambandi. Ég segi ekki annað en þetta, frú forseti: Það er eitthvað mikið að hjá þessari ríkisstjórn. Hvaða fullvalda ríki lætur sér detta í hug að vera með umsókn inni að Evrópusambandinu á meðan óvissan er eins mikil og hún er? Og neyðarfundir ríkisstjórnarinnar — ég hafði ekki áttað mig á því (Forseti hringir.) hvað ríkisstjórnin lítur málið alvarlegum augum. Ég átta mig enn síður á því hvers vegna umsóknin er þá ekki dregin til baka.