140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir þekkir vel hugarheim stjórnarliða enda hefur hún verið dugleg að gagnrýna vinnubrögð og vinnulag hjá hv. stjórnarliðum. Það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er að segja er að stjórnarliðar hafa talið allar líkur á því að svarið við fyrstu spurningunni verði nei og þar af leiðandi sé það mál úr sögunni nema það komi aðrar spurningar sem því miður eru ekki skýrar. Þetta er áhugavert.

Ég hef bara heyrt það á göngunum, ekki í ræðustól, að ef það kemur nei við fyrstu spurningunni séu tillögur stjórnlagaráðs farnar út um gluggann. Mér finnst það áhugavert. Ef 51% eða 55% segja nei, sem mér finnst ekkert sjálfgefið en gefum okkur að það færi þannig, má þá ekki nota neitt úr þeim tillögum? Það er spurning sem hefur ekki verið svarað. Þeir sem ræða þessi mál og eru núna að senda skeyti bæði í greinum og tölvupóstum til okkar hv. þingmanna eru aðilar í stjórnlagaráðinu sem hafa endalausan aðgang að fjölmiðlum og sérstaklega ríkisfjölmiðlinum. Ég mundi ætla að þeir væru búnir að koma ár sinni vel fyrir borð hvað það varðar.

Kannski eru stjórnarliðar að vona að það komi nei, það losi þá úr einhverju. Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir segir, það er algjörlega óskiljanlegt af hverju menn byrjuðu ekki á því að vinna vinnuna, af hverju menn byrjuðu ekki á því að fá sérfræðinga til liðs við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að skoða tillögur stjórnlagaráðs. Það er eftir. Við erum algjörlega að byrja á öfugum enda.