140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég átti mig á þeim þætti hjá hv. þingmanni sem sneri að því ef það kæmi já við fyrstu spurningunni. (Gripið fram í: Já.) Ef ég skil hv. þingmann rétt telur hún að stjórnarliðar séu hræddir við að fá nei en þá eru hv. stjórnarliðar ekki búnir að hugsa hvað gerist ef þeir fá já. Hvað þýðir naumt já með lítilli kosningaþátttöku? Ætla þeir þá að taka allt sem er í stjórnlagaráðinu, allar greinarnar og setja í tillögu að nýrri stjórnarskrá, ætla þeir kannski að taka helminginn eða 60% eða hvað?

Það eru tveir sérfræðingahópar sem þurfa að koma að þessu og vera þingi og þjóð til aðstoðar við að túlka þetta. Það eru annars vegar þeir sem skoða lagalega þáttinn. Hvaða afleiðingar hefur það til dæmis að hafa kaflann um heilbrigðismál eins og hann er? Hefur það einhverjar afleiðingar? Hefur það þær afleiðingar að einhver sem er lengi á biðlista eins og stundum gerist geti sagt: Þetta er ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónusta og ég get gert skaðabótakröfu á hendur ríkinu? Eða getur hann sagt: Í Noregi og Svíþjóð fæ ég betri meðferð en á Íslandi þannig að þetta er ekki fullnægjandi? Getur hann farið í mál við ríkið? Ég veit það ekki, það hefur ekki verið fjallað um það. Það er annar sérfræðiþátturinn.

Síðan er hitt, að fara í skoðanakönnun, sem er sérmál. Þá eru kallaðir til menn sem eru vanir að búa til skoðanakannanir. Það er farið yfir það hvort uppfyllt séu öll skilyrði sem þurfa að vera fyrir spurningar þannig að skoðanakönnunin verði marktæk. Það er augljóst að þetta uppfyllir ekki þessi skilyrði. Það er dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn sem er mesta fúskstjórn og þá ekki bara sem ríkisstjórn, þetta er bara mesta fúskstjórn sem hefur komið til Íslands. Hún er núna (Forseti hringir.) að byrja á því sem hún átti að byrja á þegar við erum að vinna mál eins og þetta risamál.