140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt ræðu um daginn í þessu máli og hafði til þess 20 mínútur, boðaði þá að ég mundi koma aftur og fara betur yfir þau álitaefni sem mér gafst ekki tími til að fara yfir þá. Ég fékk ábendingar þess efnis að ég hefði hugsanlega verið ónákvæmur í orðalagi þegar ég fjallaði um það hvort til stæði að landið yrði allt eitt kjördæmi. Það sem ég var að benda á var að í tillögum stjórnlagaráðs er lagt til að hluti verði kosinn í einu kjördæmi en að einhverjir yrðu svo kosnir samkvæmt nýrri kjördæmaskipan.

Það sem ég benti á var að þetta mundi leiða til aðstöðumunar á milli íbúa svæða og vera í óhag íbúum sem búa í þeim þrem kjördæmum sem teljast til landsbyggðarinnar. Þegar maður er með slíkt ákvæði í tillögum getur það eitt og sér leitt til þess að jafnvel þó að allar aðrar tillögur séu góðar muni þetta eina ákvæði fella allt úr gildi. Þess vegna mun fólk einfaldlega segja nei þegar það verður spurt hvort það vilji nota tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Mér þótti það miður svo ég segi alveg eins og er.

Meðal þeirra spurninga sem meiri hlutinn vill að kjósendur svari er þessi:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Af hverju er þessi ójafna skipting í dag? Jú, vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu eru allar stjórnsýslustofnanir, öll ráðuneyti og Alþingi sjálft. Þessu er ekki dreift jafnt um landið. Þegar aðstöðumunurinn er svona mikill verður að leiðrétta hann með einum eða öðrum hætti og þess vegna hefur vægi atkvæða þeirra sem búa í hinum dreifðari byggðum, eins og Vestfjörðum, verið meira en annarra. Þetta hefur sætt gagnrýni og á undanförnum árum hefur verið farin sú leið að auka vægi atkvæða íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Núverandi hlutfall er 33 þingmenn af höfuðborgarsvæðinu og 30 af landsbyggðinni. Í næstu kosningum verða 34 þingmenn af höfuðborgarsvæðinu og 29 úr landsbyggðarkjördæmunum. Ég ímynda mér að meiri hluti landsmanna segi já við spurningunni sem ég nefndi áðan um atkvæðavægi kjósenda vegna þess að flestir búa á höfuðborgarsvæðinu og þá gæti sú niðurstaða fært kjördæmum höfuðborgarsvæðisins 40 þingmenn og landsbyggðarkjördæmunum 23 þingmenn. Það stendur ekki til að færa einhverjar stofnanir ríkisins út á land vegna þess að því miður hefur reyndin verið sú að þessi ríkisstjórn hefur fært störf af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það er staðreynd. Ég held að við þurfum að spyrja okkur hvort það sé rétt að fara þessa leið, hvort það sé rétt að spyrja kjósendur þessara spurninga þegar við getum verið nokkuð viss um að niðurstaðan verður sú að meiri hluti kjósenda vill jafna vægi atkvæða. Um það snýst lýðræðið.

Lýðræðið er nefnilega þannig að það verður alltaf að taka tillit til minni hlutans, það er grunnurinn að því lýðræði sem við búum við í dag. Við förum ekki af stað með tillögur sem hafa verið felldar á Alþingi. Ég var reiðubúinn að teygja mig ansi langt til að fá fram breytingar á nýrri stjórnarskrá. Ég tel að margt gott hafi komið fram í tillögum stjórnlagaráðs, jafnvel þó að þessar sem ég nefndi séu það ekki að mínu mati.

Þegar Hæstiréttur hafði dæmt kosningu til stjórnlagaþings úr gildi varð ljóst að Alþingi þurfti að bregðast við. Eðli tillögunnar hafði breyst og við sem stóðum að því að skipa þessa aðila sem höfðu vissulega hlotið meiri hluta atkvæða í stjórnlagaráð settum það skilyrði að við mundum ræða á Alþingi tillögurnar sem kæmu frá stjórnlagaráðinu. Þingmenn Hreyfingarinnar voru þessu ekki sammála og sögðu: Það er ófrávíkjanlegt skilyrði af okkar hálfu að tillögur stjórnlagaráðs fari í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar það hefur lokið starfi sínu. Ég og fleiri þingmenn sögðum hins vegar: Eðli þessa hóps hefur breyst úr stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð og við skulum samþykkja þetta með því skilyrði að málið komi á Alþingi og verði rætt þar efnislega.

Þingmenn Hreyfingarinnar voru ósátt við þessa niðurstöðu og þau lögðu fram breytingartillögu við þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs. Breytingartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.“

Með öðrum orðum lögðu þau það til sem við erum að ræða núna á Alþingi, að áður en efnisleg umræða færi fram ætti þjóðin að segja sína skoðun. Þetta var fellt á Alþingi. 42 þingmenn sögðu nei, sex sögðu já, níu sátu hjá. 42 þingmenn sögðu þá að það ætti ekki að fara þá leið að spyrja þjóðina áður en Alþingi hefði farið efnislega yfir tillögurnar. Samt sem áður stöndum við hér í dag með tillögu Hreyfingarinnar fyrir framan okkur um það hvort það eigi að spyrja þjóðina fyrst.

Ég ætla líka að benda á eitt ef mér gefst tími til þess. Þingmenn Hreyfingarinnar vildu útfæra þjóðaratkvæðagreiðsluna þannig að unnt yrði að greiða atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins og samhangandi greinar þess þar sem við ætti (Gripið fram í: Þú varst búinn að ræða þetta.) og fleiri en eina útfærslu af einstökum greinum sem mikið ósamkomulag kann að vera um í stjórnlagaráði. Þingmenn Hreyfingarinnar vildu sem sagt að allar greinar nýrrar stjórnarskrár kæmu til atkvæða.

Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því að nú er einfaldlega verið að spyrja hvort menn vilji gömlu eða nýju. Og hver er reiðubúinn að fullyrða að allt sé ónýtt í gömlu stjórnarskránni? Ekki ég. Hver er reiðubúinn að fullyrða að allt sé ónýtt í þeirri nýju? Ekki ég heldur. Ég held að það sé margt gott í gömlu og margt gott í nýju. En staðreyndin er því miður sú að við erum að fara í (Forseti hringir.) kosningar þrátt fyrir að mikill, eindreginn og óumdeildur meiri hluti Alþingis hafi sagt nei á sínum tíma við þessum tillögum.