140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég er algjörlega sammála því að sú tillaga sem við ræðum hér er ákveðið skref sem þjónar duttlungum ríkisstjórnarinnar en duttlungarnir snúast um það að halda völdum. Þess vegna er farið af stað í þennan leiðangur. Það er engum blöðum um það að fletta að þetta er málamiðlun sem við ræðum hér og málamiðlunin gengur út á það að breyta stjórnarskránni með allt öðrum hætti en venja og hefð er fyrir. Ef menn eru þeirrar skoðunar, og ég virði skoðanir hv. þingmanns hvað það varðar, að þær aðferðir hafi ekki dugað lengur bið ég að minnsta kosti um að við reynum þá að sameinast um það hvaða leiðir við eigum að fara til að fá fram viðhorf almennings, þjóðarinnar, á því hverju sé brýnast að breyta í stjórnarskránni. Hv. þingmaður sagði réttilega: Ég er ekki sammála því að allt sé ónýtt í gömlu og góðu stjórnarskránni. Ég mundi frekar segja að hún væri mestanpart mjög fín, enda hefur okkur tekist að breyta ákveðnum, mikilvægum köflum sem þjónað hafa almenningi vel eins og ég kom inn á, til dæmis mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Ég hef þó sagt að við hefðum getað gert margt betur þegar við lítum í baksýnisspegilinn. Ég hefði gjarnan viljað að við sjálfstæðismenn hefðum tekið meðal annars auðlindaumræðuna fastari tökum. Ég fullyrði og hef sagt það áður að það er ekki mjög langt á milli manna. Við horfum hins vegar alltaf upp á það að þessi ríkisstjórn slær alltaf á útrétta sáttarhönd allrar stjórnarandstöðunnar í stað þess að taka í hana, þá meina ég sáttarhönd bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, í mörgum málum og ítrekað því að ríkisstjórninni er umhugað um að halda völdum í ófriði í stað þess (Forseti hringir.) að ná sátt um meiri háttar mál fyrir samfélagið allt.