140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er svo sem sammála hv. þingmanni um að það væri ákaflega æskilegt og mjög gagnlegt fyrir þetta mál ef við gætum efnt til umræðu við þá sem að þessum tillögum standa eins og ég taldi að ætti að vera markmiðið með umræðum hér. En það hefur, eins og hv. þingmaður benti á, algerlega vantað upp á það og fyrir vikið erum við stjórnarandstöðunni sett í þá stöðu að þurfa að velta vöngum um hvað menn eru að fara í ýmsum greinum þessarar tillögu.

Hv. þingmaður er kominn út í umræðu um efnisatriði tillögu stjórnlagaráðsins og ég get ekki annað en spurt hv. þm. Bjarna Benediktsson eins og ég spurði hv. þm. Pétur H. Blöndal áðan: Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að við eigum að ræða í þinginu um tillögur stjórnlagaráðs áður en þær fara í þjóðaratkvæðagreiðslu? Og ef það er mat hv. þingmanns, hvaða ástæður sér hann þá fyrir því? Ég er ekki að lýsa mig andsnúinn því en ef við ætlum að fara í þá umræðu sem, eins og ég segi, ég er alls ekki að segja að sé óeðlileg er hún gríðarlega umfangsmikil. Eins og hv. þingmaður kom inn á í upphafi máls síns hafa menn haldið því fram að hér væri ómálefnalegt málþóf þegar við höfum ekki gert annað en að reyna að átta okkur á þessum tillögum sem við fáum engar skýringar á frá stjórnarliðinu, en ef menn ætla að fara að ræða allar greinar í tillögum stjórnlagaráðsins eru þær 114. Þegar um er að ræða breytingar á sjálfri stjórnarskránni er varla neitt óeðlilegt við það að ræða hverja grein fyrir sig. Ef einhver teldi sig þurfa að fara yfir þetta allt saman og héldi fimm mínútna ræðu um hverja grein yrðum við hér fram á næsta haust að ræða þetta mál. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að það sé tilefni til þess fyrir þingið að fara efnislega yfir allar þessar tillögur og höfum við aðstöðu til þess?