140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég leit svo á að eftir að skýrslan var lögð fram frá forsætisnefnd þar sem fylgdu tillögur stjórnlagaráðsins yrði rætt um þær efnislega í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ásamt með öðru efni sem við höfum fengið í hendur til að hefja endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Þar vísa ég til skýrslu stjórnlaganefndarinnar og jafnframt til þess sem áður hefur verið unnið eins og í tíð nefndar sem vann undir forustu Jóns Kristjánssonar á fyrra kjörtímabili. Það virðist þó ekki hafa verið hugmyndin hjá þeim sem fóru með meiri hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd heldur að bera það undir þjóðina hvort þingið ætti að semja frumvarp sem byggir á tillögum stjórnlagaráðsins.

Við skulum hafa í huga að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr var kosning til stjórnlagaþings ógilt af Hæstarétti sem varð til þess að komið var á fót stjórnlagaráði. Hvernig var stjórnlagaráðið skipað? Það var skipað af meiri hluta þingmanna. Stjórnarliðarnir fyrst og fremst tóku sig saman og fengu stuðning til þess frá minnstu flokkunum að koma á fót svokölluðu stjórnlagaráði sem var í sjálfu sér ekki annað en nefnd sem meiri hluti þingsins kaus alla fulltrúana í. Aldrei áður í þingsögunni hefur verið komið á fót nefnd á Alþingi þar sem stjórnmálaflokkarnir eiga ekki hver sinn fulltrúa. Það hefur aldrei gerst. Hvernig halda menn að ástandið væri í þessu þjóðfélagi ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í meiri hluta (Forseti hringir.) og hefði í samstarfi við einhvern annan flokk skipað alla nefndarmenn í eina nefnd, látið hana semja nýja stjórnarskrá og ætlað svo að ryðjast (Forseti hringir.) með þær hugmyndir í gegnum þingið og bera undir þjóðina og kalla það síðan málþóf þegar menn hreyfa andmælum?