140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það hefur verið þessari umræðu mjög til vansa að hér er verið að tala um tvo hluti í einu. Annars vegar hefur þeirri hugmynd verið komið inn í þessari umræðu og í þjóðfélagsumræðunni að hér standi fyrir dyrum þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Það er nauðsynlegt að árétta enn og aftur að svo er ekki. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Hins vegar er kannski það sem meginmáli skiptir að hér er verið að tala um formlegar breytingar á stjórnarskrá en ekki efnisatriði.

Lítum snöggvast fram hjá því sem ég hefði haldið að ætti að vera grunnur umræðunnar, efnislegar breytingar á stjórnarskrá, hvaða þættir það eru í stjórnarskrá sem þarf að breyta, hvaða sjónarmið maður vill að helst ríki þegar litið er til slíkra breytinga, ef við tökum það til hliðar, ég vil þó segja að það er sú umræða sem mér hefur helst þótt skorta í þinginu á undanförnum missirum, að alþingismenn taki það hlutverk sitt alvarlega að þeir eru stjórnarskrárgjafinn og setji á dagskrá umræður um grundvallaratriði í stjórnarskránni. Við skulum taka það til hliðar og líta á þá málsmeðferð sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur kosið að setja þetta mál í.

Eftir að tillaga stjórnlagaráðsins var lögð inn í þingið hefur afar lítil umræða farið fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta mál, (Gripið fram í.) það verður að segjast alveg eins og er, þegar við lítum til slíks grundvallarmáls. Það má segja að það hafi verið nokkuð seint í vetur sem sú umræða fór af stað að það þyrfti að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Maður hlýtur þá að spyrja sig hver tilgangurinn með slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu sé.

Hvað er það sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar telur sig fá út úr því að fara með málið þegar það er ekki tilbúið til þjóðarinnar, spyrja hana í fyrsta lagi um tillögurnar almennt og síðan um einstök álitamál? Sé það vilji meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að leita leiðsagnar, ef við getum orðað það svo, hjá þjóðinni, fá að átta sig á því hvaða atriði það eru sem helst brenna á þegar litið er til breytingar á stjórnarskrá, er önnur aðferð miklu betri til að fá slíkt fram (Gripið fram í.) en að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar fyrir utan er hún miklu hagkvæmari fyrir bágborinn ríkissjóð og það er einfaldlega að gera hér mjög djúpa skoðanakönnun og líta á hana sem lið í því breytingaferli sem breytingar á stjórnarskrá eru. Um leið og leitað væri umsagna sérfræðinga, sem ég vil enn og aftur taka fram að var þó til bóta af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, mætti framkvæma djúpa skoðanakönnun.

Það kom fram í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar þessi tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu var rædd og ræddar voru þær spurningar sem til stendur að bera undir þjóðina að þeir gestir sem gerst þekkja á vettvangi skoðanakannanamála töldu að slíkar aðferðir væru síst verri og jafnvel betri en ómarkvissar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta finnst mér mjög mikið lykilatriði og ég hef ekki enn þá fengið svör við því hvers vegna meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fer ekki þessa leið, lítur ekki til þess að bæði ráðstafa fjármunum af skynsemi og eins fá þá leiðsögn sem hún telur sig þurfa að fá mun skýrar en meiningin er að fá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við vitum það að meira að segja fyrsta spurningin er afskaplega óljós og í kjölfarið er ómögulegt fyrir virðulega nefnd að túlka hvað í svarinu felst. Þetta finnst mér skipta verulega miklu máli, þetta snýst ekki um að menn séu andsnúnir þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef svo væri væri nær að spyrja virðulegan meiri hluta hvaða skoðanir hann hefur haft á beiðnum um þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili. Slíkum tillögum hefur ávallt verið hafnað, þær hafa ávallt verið felldar. Fyrst var það fellt þegar við vildum fá atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það var einnig fellt vegna Icesave-samninganna í tvígang og síðan var það enn fremur fellt af þessum sömu aðilum og nú ætla að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þingmenn Hreyfingarinnar lögðu það til á sínum tíma að þessar tillögur ættu að fara óræddar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eitthvað hefur þetta snúist í höndunum á virðulegri nefnd síðustu metrana.

Ég hef ekki enn þá gefið frá mér þá hugsun að Alþingi sé fært um að taka þetta mál til vinnslu. Ég neita því að ekki sé hægt að ná slíkri samstöðu á Alþingi. Um leið og við viðurkennum það og teljum að svo sé (Forseti hringir.) hefur Alþingi sett niður og ég vil ekki taka þátt í slíku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)