140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þá vinnu sem Jón Kristjánsson leiddi og stjórnarskrárnefndina sem vann heilmikla vinnu á sínum tíma sem byggðist einmitt alltaf á því að það þyrfti að ná víðtækri sátt og samstöðu um allar breytingar. Þess vegna náði minni hlutinn á þeim tíma, stjórnarandstaðan sem nú er ríkisstjórnarmeirihlutinn, iðulega sínu fram. Ef minni hlutinn þáverandi lagðist gegn einhverju var ekki reynt að keyra það áfram.

Eins og ég nefndi í fyrra andsvari er það ekki að ástæðulausu sem menn vinna breytingar á stjórnarskrá með þessum hætti. Það er vegna þess að hugmyndin með stjórnarskrá, ástæðan fyrir því að þjóðir hafa sett sér stjórnarskrá, er sú að hún feli í sér þær grundvallarreglur sem allir eru meira og minna sammála um, reglur sem geta haldist óháð breytingum á ríkisstjórn, óháð því hvort þær hallast til vinstri eða hægri eða eru á miðjunni eins og auðvitað væri best að væri sem oftast.

Það er mjög hættulegt ef frá þessu er horfið af ýmsum ástæðum. Og nú væri fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður er sammála mér þegar ég segi að ein af hættunum sem þessu fylgir sé að almennur pólitískur óstöðugleiki og óvissa aukist enn frá því sem nú er. Þá er rétt að hafa í huga að nú er Ísland í fyrsta skipti komið á lista með vanþróuðum þriðja heims ríkjum yfir lönd þar sem pólitísk áhætta er sérstakt áhyggjuefni fyrir fjárfesta. Slík er nú pólitíska óvissan orðin á Íslandi, Ísland er meðal annars flokkað með löndum í Suður-Ameríku og Afríku. Er ekki hætt við því að ef sú pólitíska óvissa næði líka inn í stjórnarskrána sjálfa (Forseti hringir.) mundu menn ekki treysta sér til þess að fjárfesta á Íslandi, jafnvel ekki til að búa á Íslandi?