140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í þeirri stöðu núna að ræður okkar eru mjög stuttar. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur farið yfir efnisatriði stjórnarskrárinnar. Við þurfum ekki að hlusta lengi á hv. þm. Pétur Blöndal til að átta okkur á því að flest þessi efnisatriði þarfnast yfirlegu og umræðu. Ég var að hlusta hér á ræðu hv. þingmanns. Hann tók bara nokkur atriði og öll voru þau þess eðlis að þau kölluðu á það að við ræddum þau ítarlega á hv. Alþingi sem og úti í þjóðfélaginu.

Þessar greinar eru 115. Fyrsta spurningin í skoðanakönnuninni er hvort leggja eigi þær til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Það er ekkert búið að ræða þær. Þetta sýnir svo vel hvað það var vond hugmynd að endurskoða þetta allt saman í heild sinni í stað þess að afmarka einstaka þætti og fá þá góða og djúpa umræðu hjá þingi og þjóð um viðkomandi málefni.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessar tillögur frá stjórnlagaráðinu bera tíðaranda sínum vitni en ég held að það sé afskaplega mikilvægt að stjórnarskrá sé hafin yfir slíkt, það er grundvöllur okkar stjórnarskipunar. Hún á að standa til langs tíma og vera einföld og skýr, helst stutt og á að vera það grundvallarplagg sem þjóðin getur sætt sig best við, sama í hvaða flokki viðkomandi einstaklingur er eða hvaða stjórnmálaskoðanir og trúarskoðanir viðkomandi hefur. Ég hef trú á því að mjög margt sameini okkur Íslendinga og það hefði verið æskilegra að vinnubrögðin ýttu frekar undir sátt. Þegar menn vinna þetta eins og þessi fúskríkisstjórn gerir er það hvorki grunnur að málefnalegri né góðri umræðu, því síður að sátt.

Úr því að sú leið var farin, og ég ætla ekkert að fara út í það hér, að setja þetta stjórnlagaráð á laggirnar hefði átt að vera næsta skref að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kallaði til sérfræðinga til að fara yfir tillögurnar þegar stjórnlagaráðið hafði lokið störfum og meta hvað þær þýddu og hvaða afleiðingar það hefði að setja viðkomandi texta inn í stjórnarskrá. Þannig vinnum við hér almennt með mál vegna þess að það er skynsamlegt og það er unnið þannig með mál til að koma í veg fyrir slys. Vegna þess að við vöndum okkur stundum ekki nógu mikið og það er unnið of hratt verða lög samt sem áður óvönduð og sá sem verður fyrir barðinu á slíkum slysum í lagagerð er þjóðin. Það var ekki gert í þessu tilfelli og ekki fyrr en núna. Núna loksins eru sérfræðingar kallaðir til, að vísu skilst mér að það hafi ekki verið unnið í sátt með stjórnarandstöðunni hvaða einstaklingar það ættu að vera en látum það liggja á milli hluta. Það eru þó aðilar sem eiga að hafa sérþekkingu á þessu sviði sem eru að rýna textann og koma með álit.

Ég hef rætt hér og farið yfir sumar spurningarnar, ég á eftir að fara yfir margar, og sýnt hversu rangar þær eru aðferðafræðilega. Hvað þýðir að þær séu aðferðafræðilega rangar? Það þýðir að þær eru ekki skýrar. Niðurstaðan úr skoðanakönnuninni, sama hver hún verður, verður markleysa því að spurningarnar eru ekkert skýrar og þá vita menn ekki niðurstöðuna þrátt fyrir að það komi niðurstaða í einhverjum kosningum. Ég mun fara nánar í það síðar, virðulegi forseti.