140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær sagði hv. þm. Magnús Orri Schram að það væri ekki boðlegt að búið væri að taka Alþingi Íslendinga í gíslingu eins og hann orðaði það, var þá að vitna til þeirrar umræðu sem við höfum hér um þetta mál og vildi meina að minni hlutinn á Alþingi væri með meiri hlutann í einhvers konar gíslingu út af þessu máli. Þessu má snúa við og senda ummælin til föðurhúsanna. Þessi meiri hluti er með þeim vinnubrögðum sem hann ástundar í þinginu, ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum stórum ágreiningsmálum, búinn að breyta þeim hefðum sem hefur verið starfað eftir á Alþingi í langan tíma.

Hér hafa oft og tíðum verið átök um málsmeðferðir og lyktir mála, en það hefur aldrei verið eins djúpstæður ágreiningur og það hefur aldrei verið viðhaft eins mikið tillitsleysi, vil ég fullyrða, af hálfu meiri hluta þingsins og við erum að upplifa frá þeim meiri hluta sem nú situr á þingi og hæstv. ríkisstjórn í mörgum málum gagnvart minni hlutanum og þjóðinni. Þetta endurspeglast kannski fyrst og fremst í þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð við undirbúning mála, hversu illa unnin þau eru þegar þau koma til þings. Við sjáum þetta í þessu máli þar sem nú á að leggja af stað í einhverja vegferð og fara í eitthvert samtal við þjóðina eins og það er notað í einhverju orðskrúði, eiga samtal við þjóðina um stjórnarskrána. Það samtal hefur í sjálfu sér átt stað með þjóðfundinum og væri hægt að láta eiga sér stað með allt öðrum og hagkvæmari hætti. Spurningarnar eru aftur á móti ekki betur frágengnar en svo að það á að fá síðan einhverja lögspekinga til að fara yfir málið í sumar og rýna það, þetta sama mál og stóð til að keyra í gegnum þingið fyrir stuttu og kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum, eins vanbúið og það var.

Við sjáum þetta endurspeglast í málum eins og fiskveiðistjórnarmálinu sem hefur komið ítrekað inn í þingið og fengið algjöra falleinkunn þar sem afleiðingar tillagnanna hafa ekki verið skoðaðar. Það er eins og menn hafi setið og hripað eitthvað niður á blað á síðustu stundu og kastað því svo inn til að uppfylla einhverja tímaákvarðanir. Við sjáum þetta í rammaáætlun, ég vil nefna það líka, rammaáætlun sem var í níu mánuði í meðförum ráðherranna eftir að málið var til þeirra komið. Því er síðan kastað algjörlega vanbúnu inn í þingið, morandi í pólitískum fingraförum og komið í þann farveg að það getur aldrei náð markmiðum sínum.

Þetta kalla ég að taka Alþingi í gíslingu, að bjóða upp á þessi vinnubrögð.

Þá vil ég vitna aftur í orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams þar sem hann segir að hér sé bara verið að tala um að eiga samtal við þjóðina um að rita nýja stjórnarskrá og að það séu sex lykilatriði sem þau telja rétt að leita til þjóðarinnar með.

Það hefur margítrekað verið farið fram á það hér að þessir meirihlutaflokkar ættu samtal við þjóðina eða þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem eru þó þess eðlis að það væri mjög auðvelt að setja það í gang. Það er vitað að það er ríkur meirihlutavilji meðal þjóðarinnar um það. Þar er ég til dæmis að vitna í aðildarviðræður okkar að Evrópusambandinu. Það er mál sem ekki má eiga samtal við þjóðina um.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði í umfjöllun um þetta mál sem við ræðum hér nú að hún skoraði á þingmenn að vera ekki hræddir við fólkið í landinu. Hún misskilur það algjörlega ef hún telur að við þingmenn minni hlutans sem stöndum hér og ræðum þetta mál séum hræddir við fólkið í landinu. Við erum ekki hrædd við þá umræðu að hér sé verið að stunda eitthvert málþóf. Við vitum alveg að almenningur í þessu landi er löngu farinn að gera sér grein fyrir því um hvað þetta snýst. Þetta snýst um vinnubrögð í þinginu. Auðvitað er ekki boðlegt fyrir þjóðina að fylgjast með vinnubrögðum af þessu tagi og þá á ég fyrst og fremst við það hvernig mál eru búin hingað inn. Við getum ekki annað en staðið vörð um lýðræðið.

Ég kom inn á það í ræðu minni hér fyrr í vetur um þetta sama mál að þegar sósíalisminn og lýðræðið mættust yrði lýðræðið að víkja. Þannig upplifum við það mörg í málsmeðferð ríkisstjórnarflokkanna á því hvernig haldið er á málum hér innan dyra. Það kalla ég að taka þingið í gíslingu.

Það er auðvitað ekki boðlegt hvernig er verið að breyta hefðum hérna.

Í þessu máli finnst varla sá fræðimaður sem styður þessa málsmeðferð. Það finnst varla sá fræðimaður sem styður þá vegferð sem ríkisstjórnin vill fara í þessu máli. Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins fékk þetta mál til umfjöllunar var ákveðið að leita til Lagastofnunar Háskóla Íslands um það hvort hún gæti farið ofan í tillögurnar og komið með faglega úttekt. Menn voru tilbúnir til þess en sögðust þurfa til þess eins og eitt ár. Sá tími var ekki fyrir hendi.

Við vitum að um mörg grundvallarmál sem varða breytingar á stjórnarskránni er ekki svo mikill ágreiningur. Mjög var tekist á um þessi mál hér 2005, 2006 og 2007. Þar má nefna auðlindamálin sem án efa eru pólitískasta viðfangsefnið í þessari endurskoðun og því er rétt að hafa það sem forgangsverkefni. Er það pólitískt óleysanlegt mál? Ég held að þegar það er skoðað nánar fari því fjarri. Það er sennilega mest rædda álitaefnið sem við erum hér með.

Fyrir um áratug voru fyrst settar fram hugmyndir um stjórnarskrárbindingu auðlindaákvæðis. Það var samstaða meðal allra þingflokka. Undir forustu Bjarna Benediktssonar í undirnefnd stjórnarskrárnefndarinnar 2005 var rædd svipuð lausn. Það var komið samkomulag að texta á milli stjórnmálaflokka fyrir kosningar árið 2007 en menn vildu ekki fara fram með einhverjum asa í málinu og ákváðu því að leggja það ekki fram fyrir kosningar.

Við erum ekki að leggja annað til í þessu máli, virðulegi forseti, en að hér verði farið að eðlilegum vinnubrögðum í svo mikilvægu máli sem umfjöllun um stjórnarskrána er. Þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin ástundar í þessu máli eru ekki boðleg. Hún á sér ekki samnefnara hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Þar er farin sú leið sem okkur hefur auðnast að fara á Alþingi Íslendinga um áratugi, að reyna að ná sem víðtækastri sátt, gefa sér þann tíma sem þarf til þess að fara yfir þetta mikilvæga mál.

Heittrúuðum sósíalistum í þessari ríkisstjórn og í þessum ríkisstjórnarflokkum liggur mikið á. Þeim liggur mikið á að gera grundvallarbreytingar í samfélaginu og það eru auðvitað þessi sósíalísku vinnubrögð sem við erum hér að berjast gegn. Þetta snýst um það. Þetta snýst um að fá mannsæmandi vinnubrögð af hálfu meiri hlutans. Það eru því mikil öfugmæli þegar vitnað er til þess að við í minni hlutanum séum að taka þingið í gíslingu. Það er ekki boðið upp á annað. Það er ekki boðið upp í annan dans, virðulegi forseti, en þann sem við dönsum hér. Það er virkilega (Forseti hringir.) til hnjóðs fyrir þá þingmenn meiri hlutans sem að þessu máli standa hversu lítið þeir hafa tekið þátt í umræðunni. Þeir hafa ekki komið hingað og átt málefnalegar umræður um einstök ákvæði þessarar tillögu. Þá hefur algjörlega vantað hér til að gera grein fyrir máli sínu.