140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Aðeins til að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson skildi við hann vil ég segja að það er einmitt hárrétt hjá hv. þingmanni að hér hafa stjórnarliðar ekki sýnt sig, hvorki í dag né síðustu daga, í umræðunni um þetta mál. Mér finnst það afar furðulegt. Ég er til að mynda ekki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það eru ýmsar spurningar sem blossa upp þegar menn lesa yfir nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, eðlilegar spurningar, og það hefði verið gott ef þeim hefði verið svarað. Ég er búin að telja að minnsta kosti 35 spurningar bara í dag sem hafa komið upp í umræðum meðal þingmanna um þessa skoðanakönnun sem menn vilja láta fara fram í október og ef menn hefðu látið svo lítið að mæta í þingsal og svara þessum spurningum fullyrði ég að menn hefðu liðkað fyrir umræðunni, ef menn hefðu getað útskýrt málið fyrst þeim er það svona kært (Forseti hringir.) í þessu formi …

(Forseti (ÁRJ): Vill hv. þingmaður að forseti kalli eftir einhverjum úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Ég sé að einhverjir þingmenn úr nefndinni eru í húsi.)

Já, það væri ágætt. Ég var ekki einu sinni svo bjartsýn að ætlast til þess að þeir væru í húsi, en mér þætti vænt um ef hæstv. forseti mundi kalla einhverja af þessum nefndarmönnum inn í þingsal.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess.)

Kærar þakkir, frú forseti.

Við erum að ræða hér vinnubrögð og það væri óskandi ef aðrir í stjórnarmeirihlutanum sýndu þau vinnubrögð og viðbrögð sem hæstv. forseti hefur sýnt, m.a. yfir þessari ræðu. Það er greinilegt að það er hlustað hér og það er meira en gert hefur verið af hálfu annarra í ríkisstjórnarflokkunum. Gott og vel, þakka ber það sem vel er gert.

Það eru ýmis ákvæði sem menn hafa rætt hér umfram önnur í þeim spurningum sem eru lagðar fram. Þeim hefur ekki verið svarað. Ég hefði gjarnan viljað ræða efnislega, eins og svo margir aðrir, um þá kafla sem stjórnlagaráðið samþykkti að breyta. Í rauninni umturnaði stjórnlagaráðið stjórnarskránni. Ég hefði viljað taka efnislega umræðu um það hvar hefði brotið á til dæmis í mannréttindakaflanum sem var endurskoðaður þvert á alla flokka í samráði við fræðimenn, samvinnu við þá sem best þekkja til í samfélaginu og í tengslum við alþjóðasamninga sem við Íslendingar erum aðilar að. Þeim kafla var breytt en ég hefði viljað vita hvar sá kafli hefur ekki nýst í íslensku samfélagi. Það er miklu frekar að sá kafli hafi staðið vörð um þau mannréttindi sem þar falla undir með miklum sóma, stundum reynst pískur á ríkjandi stjórnvöld hverju sinni. Ég hefði viljað taka þá umræðu af hverju þessar breytingar eru gerðar á mannréttindakaflanum.

Ég hefði líka gjarnan viljað taka umræðu um forsetakaflann, um það hvernig menn túlka embætti og valdheimildir forseta Íslands. Núverandi forseti telur að stjórnlagaráðið sé að víkka mjög út valdheimildir sínar. Ég sé það líka á nokkrum ráðsmönnum að þeir eru ekkert endilega sammála þeirri túlkun forseta Íslands. Ég hefði gjarnan viljað fá umræðu um þetta hér og hvert þingið sjálft sæi forsetaembættið þróast þannig að sem flestir gætu orðið sáttir.

Þessa umræðu fáum við ekki inn í þingsal frekar en aðrar. Þetta eru mikilvægir kaflar. Þetta er það sem menn hafa verið að ræða um í gegnum tíðina að menn þurfi að breyta í stjórnarskránni. Enn og aftur, efnisleg umræða hefur ekki átt sér stað. Við erum enn að tala um hvaða spurningar menn megi setja í þennan blessaða spurningavagn.

Ég sé að tíminn er að líða núna í þessari ræðu og ég vil gjarnan að ég verði sett aftur á ræðulistann. Ég vek athygli á frétt sem kom frá Noregi. Þar náðist í dag samkomulag þvert á flokka meðal annars um að taka út ríkiskirkjuna í Noregi. Það er umdeilt mál, en menn fóru yfir þetta, það varð margra mánaða og ára vinna og menn náðu samkomulagi þvert á flokka. Mér sýnist Norðmenn vera að taka svipað skref og við Íslendingar gerðum varðandi aðskilnað ríkis og kirkju árið 1995 fyrir utan það að þeir taka ríkiskirkjuna út úr sinni stjórnarskrá. Ég hefði gjarnan viljað fá efnislega umræðu um það við ýmsa, til að mynda af hálfu Vinstri grænna sem hafa lengi barist fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.

Ýmsar spurningar brenna á manni þegar maður sér það sem er sett hér fram, spurningar sem vert er að ræða enn frekar og ég mun gera hér (Forseti hringir.) síðar í umræðunni.