140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið er að sjálfsögðu nei. Þeir sem geta og hafa það í hendi sér að ná sátt í þessu máli eru forustumenn ríkisstjórnarflokkanna. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það hefur aldrei verið tekið í þær sáttarhendur sem stjórnarandstaðan hefur margoft og ítrekað rétt fram. Vel að merkja, það eru ólíkar áherslur og langanir af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna. Það er bara fínt og eðlilegt í þessu máli. Eftir stendur að í verki höfum við alltaf sýnt fram á að það eru þessir flokkar sem hafa staðið að því að reyna að ná samkomulagi um stjórnarskrána.

Það er fyrst og fremst Samfylkingin sem á sínum tíma kom í veg fyrir að slíkt samkomulag næðist af því að ákveðnum köflum sem tengist forsetaembættinu hefði ellegar veri breytt og það var henni ekki þóknanlegt á þeim tíma.

Ég held einmitt að þess vegna sé spurning hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fullkomlega eðlileg. Við erum hér með þessu atferli og hegðun og upplagi af hálfu ríkisstjórnarinnar varðandi breytingar á stjórnarskránni að brjóta venju, áralanga hefð, áratugalanga hefð, um stjórnarskrána. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessi spurning verði sett á þennan spurningavagn ef af honum verður. Þjóðin á að gefa stjórnmálamönnunum skilaboð um að við eigum að vinna málið í sátt. Ef þjóðin vill það ekki eru það bara skýr skilaboð. Þá getur ríkisstjórn eins og nú er bara þjösnað í gegn þessu mikilvæga máli varðandi stjórnarskrána sem á að vera yfir það hafin að vera pólitískt plagg, þjónkunarplagg meiri hluta hvers tíma. Ég held að það sé vond þróun.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hv. þm. Höskuld Þórhallsson sem ræddi breytingartillögu frá Hreyfingunni mun ég koma að henni í mínu síðara andsvari.