140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi hér annað sem hefur verið lagt til í breytingartillögu frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og það er að bæta við spurningu um fullveldisframsal. Ég og hv. þingmaður eigum bæði sæti í utanríkismálanefnd og þar er mál sem þetta snertir nú til umfjöllunar eins og öllum er kunnugt og varðar fjármálaeftirlit í Evrópusambandinu. Það á að taka það upp í EES-samninginn en spurningin er hvort það samrýmist íslensku stjórnarskránni. Stjórnskipunarfræðingar eru sammála um að það þurfi, ef þetta fer fram sem horfir, að breyta stjórnarskránni ef taka á tilskipunina upp í EES-samninginn. Nú er að sjá hvort samningamenn okkar og hagsmunagæslumenn taki slaginn og tryggi tveggja stoða kerfið hér eftir sem hingað til.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki skjóta skökku við þegar verið er að leggja mál í dóm þjóðarinnar, eins og hér er lagt til með tillögunni, að ekki sé tekið á þeim málum sem eru, svo ég sletti aðeins, frú forseti, aktúal í dag? Að þjóðin sé ekki spurð hvort hún telji rétt að framselja fullveldi til alþjóðastofnunar og alþjóðasamninga? Við vitum alveg af hverju það er, það er vegna þess að það tengist (Forseti hringir.) beinlínis aðildarumsókninni. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta ekki skjóta skökku við.