140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson veit var ákveðið af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um hvað ætti að spyrja í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Efnisatriði spurninganna voru þar ákveðin. Það hvernig spurt er um þessi efnisatriði var ákveðið af færustu aðferðafræðisérfræðingum landsins. Til þeirra var leitað. Þeir komu á fundi nefndarinnar. Þeir gáfu ráðgjöf um hvernig spyrja ætti og eftir því er farið.

Í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu er meðal annars spurt að því hvort vinna eigi áfram að tillögum stjórnlagaráðs. Hvað er slæmt við það? Hvað er slæmt við að þingið fái ef til vill heimild um áframhaldandi umboð til að vinna með tillögur ráðsins? Það er náttúrlega ekkert slæmt við það nema fyrir þá sem andsnúnir eru því að breyta stjórnarskránni. Þeir sem engu vilja breyta, þeir sem engu vilja hrófla við leggjast gegn allri vinnu sem lýtur að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Þeir gera allt sem þeir geta til að leggja stein í götu þeirrar vinnu.

Það er ekkert aðferðafræðilega rangt við þessar spurningar. Að halda því fram er útúrsnúningur og til þess eins gert að drepa málinu á dreif.

Gömlu hagsmunagæsluflokkarnir halda þinginu í gíslingu. (Gripið fram í.) Á laugardaginn þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir mótmælti því að stjórnarandstaðan héldi þinginu í gíslingu mismælti hún sig, eins og kemur fyrir okkur öll, og talaði um gísla í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að eftir fjögurra daga veru hér innan húss líður mér eins og gísl í þinginu. Það er þó ánægjulegt kompaní hér á þingbekkjunum þannig að það væsir ekki um mann. En ef gömlu hagsmunagæsluflokkarnir (Forseti hringir.) vilji halda þessu málþófi áfram, halda áfram að vera málpípur auðmanna þá þeir um það. Þeir mega halda áfram fram eftir sumri. (Forseti hringir.) Leyfum þeim að tala, látum þá tala og svo munum við svara þeim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)