140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má segja að allar tilraunir hæstv. ríkisstjórnar í atvinnumálum séu hörmungarsaga. Árið 2009 var sett fram 100 daga áætlun sem skapa átti 4 þúsund ársverk á næstu missirum. Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna átti að skapa grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf, eyða atvinnuleysi og treysta fyrirtækin í landinu og þá var sagt: Nú þegar hefur ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir sem skapa munu 6 þúsund störf á næstu mánuðum.

Stöðugleikasáttmálinn boðaði nýja sókn í atvinnumálum. Í minnisblaði frá ASÍ kemur fram að þar verði um að ræða fjárfestingar upp á 280–380 milljarða á ári á næstu þremur árum, samtals 950 milljarða í fjárfestingar, það átti að skapa 4.500–5.500 ársverk eða 14 þúsund störf á þessum tíma. Aðgerðin átti að taka til byggingariðnaðar, nýsköpunar, sjávarútvegs og samgöngumála, viðhalds opinberra bygginga og svo má lengi telja, endalaus upptalning.

Í stefnuræðu sinni haustið 2011 sagði hæstv. forsætisráðherra að aðgerðir ríkisstjórnarinnar mundu skapa 14 þúsund ný störf í hagkerfinu, eins og það var orðað, á næstu missirum. Nú sjáum við nýja fjárfestingaráætlun frá þessari ríkisstjórn. Hún tekur ekki til þessa kjörtímabils enda er ríkisstjórnin búin að gefast upp í atvinnumálum. Fjárfestingaráætlunin tekur til næsta kjörtímabils, það verður á ábyrgð annarra að koma henni í framkvæmd. Fjármögnun er fugl í skógi og þetta er algerlega innihaldslaust plagg, enn eitt loforðaplaggið um eitthvert átak í atvinnumálum í þessu landi. Það er ekki trúverðugra en loftbólur. Ég spyr, virðulegi forseti: Taka þingmenn (Forseti hringir.) stjórnarliðsins mark á þessu rugli? Ekki gerum við hin það. Ekki gera aðilar vinnumarkaðarins það. Ekki gerir þjóðin það.