140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Undanfarna daga hefur Hreyfingin átt í viðræðum við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar um að ákveðin mál fái framgang í þinginu, þ.e. almenn leiðrétting á skuldum heimilanna, afnám verðtryggingar, ný stjórnarskrá, persónukjör, gagnsæis- og upplýsingamál og þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Gegn því hétum við að verja ríkisstjórnina vantrausti. Þeim viðræðum lauk í gærkvöldi án árangurs. Ekki náðist samkomulag um almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eða afnám verðtryggingar og í raun kom í ljós að ekki er til nein framtíðarsýn um framtíð verðtryggingar á Íslandi önnur en sú að við munum áfram búa við óbreytt fyrirkomulag sem er mjög slæmt. Því miður lauk þeim viðræðum án árangurs en ég tel rétt að láta þingheim vita af því hvernig fór vegna þess að það skiptir þingið og alla þjóðina máli.

Annað mál sem ég tel rétt að minnast á er stjórnarskrármálið og það málþóf sem verið hefur í gangi undanfarnar vikur gagnvart því máli. Ég beini því til forseta að hugleiða það alvarlega hvort tími sé kominn á að málþóf um þetta mál verði stöðvað, eins og gert er ráð fyrir að gera megi í þingsköpum.

Þriðja málið sem mig langar til að tæpa á og kom mér á óvart er yfirlýsing hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um viðræðuslit í aðildarviðræðum við ESB. Slík ákvörðun held ég að yrði eitthvað það heimskulegasta sem íslensk þjóð gæti gert (Gripið fram í.) vegna þess að það mundi kalla á áframhaldandi áratuga deilur um hvað það þýðir að fara í ESB og menn greiddu þá atkvæði um eitthvað sem þeir vita ekki hvað er. (Gripið fram í.) Hér er um að ræða örvæntingarfulla tilraun þingmanns til að endurheimta bakland kjósenda sinna sem er horfið, en það er þó horfið vegna allt annarra mála (Gripið fram í.) en ESB. (Gripið fram í: Þór sem utanríkisráðherra.) [ Hlátur í þingsal. ] (Gripið fram í.)